Ég er það sem ég set mig á móti eða er ég það sem berst fyrir.

Nú er ég kominn í sumarfrí frá einu af mínum góðu verkefnum. Óvænt sumarfrí, get ég kannski sagt, því það var ekki ætlunin að taka hlé fyrr en verkinu var lokið árið 2021. En kringumstæður kölluðu á frí. Þessi pása gefur mér aukið svigrúm til annarra verka.

Ég var í mikilli veislu í gær inni í Kaupmannahöfn, ansi skemmtilegri veislu þar sem óvenju margt skemmtilegt fólk var samankomið. Það var frískleiki yfir samkomunni, hressileiki og gleði. Það var gaman að finna fyrir orkunni frá þessu góða fólki.

Ég þekkti ekki marga, en fólk var vinsamlegt og opið tók mér opnum örmum. Það var eftirtektarvert, eða ég tók sérstaklega eftir því, að þegar fólk  kynnti sig fyrir mér  skilgreindi það sig á svo framsækin máta. Mér hefur oft fundist fólk skilgreina sig eftir því hverju það er á móti eða hvaða týpa það vil vera. „Ég er andstæðingur Bjarna Ben … ég er andstæðingur stóriðju … ég er andstæðingur Morgunblaðsins …. ég er andstæðingur Davíðs Oddssonar …. ég er andstæðingur múslima.“ Kannski er kynningin ekki svona beinskeytt en undirtónninn er þessi. Það er sjaldan sem maður mætir fólki sem kynnir sig sem baráttumann fyrir …. öflugra menningarlífi …. ég er maður sem berst fyrir fallegri húsum, betri almenningssamgöngum, meiri músik í götunum, ég berst fyrir… Ég er það sem ég berst fyrir. Væri það ekki vænlegra til framfara?

Eins og einn ræðumaður gærkvöldsins sagi um afmælisbarnið og gerði skemmtilegt grín að öllum þessum fyrirframgefnu staðalímyndum: „Hann er hægrisinnað svín, en hann er góður maður. Ég er vinstrisinnaður, sósíalisti, og því góður maður, en innst inni er ég „dumt svin,““

„Ég er leikhúsmaður og líf mitt snýst um að allir fái uppgötvað hið stórkostlega við leiklistina,“ sagði ung kona sem var sessunautur minn og horfði upptendruð á mig. Þetta fannst mér skemmtilegt að heyra. Ég hef bara svo gaman að jákvæðum og orkumiklum tilgangi til lífsins. Áfram. Yo!

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.