Samtal við mann með rauðvínsglas.

Ég fékk gesti í heimsókn í gær og fæ gest aftur í kvöld. Það er gestkvæmt hjá mér þessa dagana. Í gær komu Ole og Tina og við kveiktum upp í pizzaofninum. Í kvöld kemur menningarblaðamaðurinn Maggi Guðmunds. Hann á erindi til Kaupmannahafnar sem kostað er af einhverju fyrirtæki út í bæ. En hann kemur hingað til að borða með okkur. Það er ekkert til í ísskapnum annað en pylsur svo við grillum pylsur fyrir Magga.

Í gær yfir pizzubakstrinum töluðum við um væntanlega ferð Ole og Tine til Íslands í ágúst á sama tíma og við erum á Íslandi. Tine og líka Ole höfðu eindregnar óskir um að sjá Gullfoss og Geysi. Ég reyndi að koma því þannig fyrir að ég þyrfti ekki að keyra með þeim á Gullfoss og Geysi. Mér finnst Gullfoss fallegur foss og mér finnst tignarlegt að sjá Strokk gjósa. En mig langar samt ekkert að eyða degi í það að sjá þessa fallegu staði ásamt þúsundum annarra ferðamanna. Mér finnst allur sjarmi fara af náttúrunni þegar hún stendur í skugga svo margra útlendra gesta.

Þótt ekki rigni í dag – satt að segja skín sólin óaflátanlega – fann ég hjá mér hvöt til að hreyfa mig svolítið, rölta einn hring um hverfið þó ekki væri annað. Það færðist líf í mig við tilhugsunina, og ég komst snögglega í betra skap en ég á að venjast. Þegar ég kom að fyrsta götuhorni áttaði ég mig á því að ég hafði ekki lengur hug á að labba í kringum hverfið. Mig langaði heldur að sjá eitthvað grænt úr því komið er sumar og þess vegna hélt ég beint af augum. Ég hafði ekki gengið lengi þegar ég kom að kaffistéttinni hérna í bænum; einu kaffistétt bæjarins. Ekki hafði ég hugsað mér að staldra við, ég ætlaði að ganga ótrauður áfram.  Við eitt af borðunum, sem er raðað á litlu torgi við götuhorn,  sat eldri herramaður með rauðvínsglas. Hann horfði annars hugar út á veginn og þegar hann sneri  í mig hnakkanum hvarflaði að mér að ekki væri ósennilegt að langur tími væri liðinn frá því hann hafði síðast þvegið sér um hárið því sólarbirtan endurkastaðist af hárfitunni á hnakkann á honum. Ég kannast við manninn. Hann er þekktur hér í bænum fyrir að hafa selt fyrirtækið sitt á hárréttum tímapunkti áður en efnahagskreppan skall á fyrir um það bil 10 árum. Fyrirtækið hans leigði byggingarkrana. Í dag notar hann tímann til að hlúa að auði sínum og drekka rauðvín á veitingahúsum.

Þegar hann kom auga á mig veifaði hann til mín. Við þekkjumst ekki en hann á heima í sömu götu og ég. Ég veifaði á móti. Hann benti mér að koma, með heldur frekjulegri handarhreyfingu. Ég hlýddi og hann benti mér að setjast á auðan stól andspænis sér. Ég hlýddi því líka og settist. „Ég má ekki vera að því að stoppa lengi …“ sagði ég. En hann greip fram í.
„Mig langar bara að spyrja þig um eitt,“ sagði maðurinn og tók örlítinn sopa af rauðvíninu sínu. „Má ekki bjóða þér eitthvað að drekka?“
„Nei, takk …“ Ég þagði á þann hátt að hann skildi að nú ætti hann að bera upp erindi sitt. En hann virtist ekki ætla að flýta sér að ljúka þessum fundi okkar, hann er ekki vanur að láta stjórna sér. Kannski átti hann ekkert ákveðið erindi við mig.
„Spilarðu enn fótbolta?“ spurði hann. Ég gat ekki séð að hann hefði áhuga á svarinu því hann horfði út á veginn og fylgdist með nokkrum eldri herramönnum í þröngum, litríkum fötum hjóla framhjá okkur.
„Já, ég spila enn?“ Ég þagnaði og gaf enn til kynna að ég við skildum klára samtal okkar fljótt.
„Flott hjá þér,“ sagði hann og virtist hafa komið auga á eitthvað sem vakti athygli hans. Hann hálfvegis reis á fætur og veifaði ákaft og gaf frá sér undarlegar stunur sem bárust djúpt innan úr líkama hans um leið og hann reyndi að ná athygli manns með derhúfu sem stóð á götuhorninu og skimaði eftir auðu sæti á veitingastaðnum. Þegar maðurinn með derhúfuna kom auga á okkur umbreyttist alvarlegt andlit hans í eitt skínandi bros. Hann hálfvegis hljóp til okkar þótt hann væri ekki á léttasta skeiði. Hann kom satt að segja askvaðandi og faðmaði borðfélaga minn innilega og rétti mér svo höndina. Við heilsuðumst.
Byggingarkranaeigandinn fyrrverandi gaf nú þjóninum með frekjulegri bendingu að hann ætti að koma með rauðvín á borðið til okkar. Og nú hófustu innilegar og ákafar samræður þessara tveggja manna og það var eins og þeir hefðu gleymt að ég sat við sama borð og þeir. Ég var orðinn ansi órólegur og vandræðalegur yfir að sitja þarna undir samtali þeirra. En ég gat ekki fengið mig til að rísa á fætur og kveðja. Við áttum einhvern veginn óklárað erindi, ég og kranamaðurinn. En hann virtist alveg hafa gleymt því. Ég sat því þegjandi en reyndi að komast inn í samtal mannanna og kveðja en ég hef aldrei verið góður með að tímasetja hvenær best er að koma  sjálfum sér að inn í samtal. Þótt ég byrjaði setningu liggur mér ekki nógu hátt rómur til að ég gæti þrengt mér inn í samtalið. Þetta var nú meiri pínan.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.