Mánudagurinn eftir sunnudag reynist vera jafn bjartur og veðurfréttamaðurinn hafði spáð. Morgunkaffið var drukkið úti á austurveröndinni þótt sólbirtan væri svo skörp að ég átti erfitt með að opna augun og borðaði hafragraut þrátt fyrir að magaverkurinn sem hrjáði mig svo mjög í síðustu viku væri horfinn. (Löng setning, yo!)
Á göngu minni til vinnu hugsaði um skemmtisögurnar sem Maggi Guðmunds sagði mér í gær yfir grillinu. Ég ætla ekki að endurtaka þær hér en hann kenndi mér þrjú ný orð; að bagga (taka tóbak í vörina), að veipa (að reykja rafknúnar sígarettur) og svo þriðja orðið sem ég er búinn að gleyma en það snerist um ákveðna tegund af mataræði.
Í dag eiga afköstin hjá mér að vera í toppi og engin afsökun að úti sé sólskin. Ég sé að hér fyrir utan gluggann minn er verið að gera við hellulögnina á brautarpallinum. Verkamaðurinn sem vinnur verkið hefur ekki áhyggjur af afköstum sínum. Hann tekur sér góðan tíma til að virða fyrir sér væntanlega lestarfarþega og eins þá sem eru nýstignir út úr lestinni frá Kaupmannahöfn. Með þessu áframhaldi verður brautarpallurinn eitt flakandi sár í allt sumar.