Hér á minni friðsælu skrifstofu á lestarstöðinni er varla hægt að hugsa fyrir látum vinnuvéla sem brjóta upp steypu fyrir utan gluggann minn. Lati verkamaðurinn frá því í gær er mættur aftur og nú hefur hann fengið bensínknúna vinnuvél. Mótorinn snýst með gífurlegum hávaða þótt sá lati góni út í loftið.
Flest það sem gerist á Facebook fer fram hjá mér, líka þegar facebook-vöndurinn er notaður gegn mér. Ég vil geta veitt mér það að hafa á röngu að standa án þess að þurfa að hlusta á skæting, ragn og formælingar. Ég vil hafa mínar tilfinningar í friði, líka þær sem eru óviðeigandi, líka þær sem eru rangar. Mér líkar ekki populisminn – hvorki til hægri né vinstri – sem blómstrar á Facebook og Twitter. Ólíklegasta fólk – líka það sem ég hafði talið bera inni í sér sterkar og frjálsar sálir – selur sjálft sig fyrir lítilsverð like og viðrar skoðanir sem augljóslega eru líklegar til að fá mörg húrrahróp frá facebook-hjörðinni. Ætli hin fátæklega skyndisamúð sem líka fæst á facebook sé smyrsl á sárin? Ég held ekki að það sé margt gott sem komi út úr þessu. En ég fæ vonandi frið til að hafa mínar röngu skoðanir.
Let’s get lost syngur Chet og reynir að yfirgnæfa vélargnýinn að utan.
Ég á von á enn einni heimsókninni í dag; og nú frá Kaupmannahöfn. Það mætti halda að ég sé vinsæll, það er ég ekki. Í þetta sinn kemur ung kona sem ég hitti fyrir nokkrum vikum í afmæli. Hún ætlar að spjalla við okkur Sus.