Sessunautur minn byggingamaðurinn

Ég var boðinn til hálfundarlegrar samkomu í gærkvöldi. Í rauninni var það ekki ég sem fékk boðið heldur Sus og ég var dreginn með. Kjötkaupmaðurinn hér í næsta bæ, býður upp á langbestu kjötvörurnar í okkar heimabyggð. Hann er líflegur náungi og mikill kaupmaður. Hann var óður og uppvægur að fá okkur til að koma til kvöldskemmtunar við búðina hans sem hann hélt í gærkvöldi (enda erum við tryggir viðskiptavinir). Hann hafði ráðið  tvo Michelin-kokka til að koma og grilla kjötið hans og sýna þessum tuttugu hræðum sem hann hafði boðið hvernig best er að meðhöndla kjötið svo úr verði ljúffeng máltíð. Eins voru einhverjir ungir náungar sem flytja inn fín vín frá Kaliforníu sem kynntu bæði rauðvín og hvítvín. Þetta var ægilega fín samkoma í tjaldi fyrir utan búðina og maturinn í stjörnuflokki.

Ég sat til borðs með hjónum sem bæði voru skemmtileg og viðræðugóð. Þau voru miklir húsbyggingaspekúlantar, áttu einhver ósköp af íbúðum út um alla Danmörku, sem þau leigðu til ungs fólks. Þau voru í samstarfi við arkitektastofuna BIG, Bjarke Ingels, sem er mikið hotshot í arkitektabransa heimsins. Nú ætla þau að byggja á Íslandi, ég held bara 500 íbúðir, og þau litu á það sem mikinn happafeng að hitta ekta Íslending og nú vildi maðurinn fá mig með sér til Íslands í sumar. Hann greip meira að segja í höndina á mér til að handsala samkomulag okkar um að ég aðstoðaði hann við bygginguna á Íslandi. Ég veit ekki alveg hvort ég sé rétti maðurinn í það.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.