Stórmerkileg hugmynd um kvöld

Nú hef ég keyrt bíl í dag. Alla leið frá Norður-Sjálandi, yfir Fjón, yfir Stórabelti og er  staddur í örlitlum bæ á Jótlandi. Henne Kirkeby. Og hér gistum við á hinni frægu krá Henne Kirkebykro þar sem úrvalskokkurinn Paul frá Englandi hefur gert kránna að einum eftirsóttasta veitingastað heims.

En það sem ég tel til stórtíðinda síðasta sólarhrings: Í gærkvöldi lá ég upp í rúmi og var lesa í bók. Ég var þreyttur og hálfsofnaði út frá lestrinum. Í svefnrofunum gerðist eitthvað það merkilegast sem ég hef orðið fyrir í háa herrans tíð. Ég fékk skyndilega, algerlega út í bláinn, þessa líka góðu hugmynd. Hún bara kom og ég glaðvaknaði. Ég ætla ekki að útskýra hugmyndina hér, maður hefur þurft að vera inn í kollinum á mér síðustu daga til að skilja hvað hugmyndin er góð og óvænt.

Ég glaðvaknaði sem sagt og var eins og dáleiddur. Áhrifin voru svo sterk – ég gaf ekki frá mér hið minnsta hljóð – að Sus sem lá við hliðina á mér og las spurði: „Hvað gerðist?“ og horfði spyrjandi í kringum sig.
„Ég fékk þessa stórkostlegu hugmynd,“ svaraði ég.
„Hugmynd? Það var líka eins og eitthvað hreyfði sig í loftinu. Má ég heyra?“
„Þú færð brátt að sjá!“
„OK!“ Hún þekkir mig. Það þýðir ekkert að spyrja mig núna. Seinna.

En nú er ég sem sagt á sveitakrá og get ekki sinnt hugmyndinni, get ekkert gert fyrr en á þriðjudaginn þegar ég kem aftur til baka og vinnudagar fólks byrja á nýjan leik.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.