Lakkrískonan

Á ferðum mínum um Vestur-Jótland rakst ég fyrir tilviljun inn á litla matarmessu í gær  – ég tek það fram ég er kominn heill heim á Søbækvej  eftir töluverða keyrslu í dag – sem haldin var inni í stórri hlöðu í smábæ á Jótlandi (íbúatalan um það bil 50 manneskjur). Þetta var hin forvitnilegasta uppákoma. Fjöldi sjálfboðaliða stýrði umferðinni á bílastæði í kringum hlöðuna. Fólk streymdi að þótt enn væri árla morguns. En veðrið var einmitt veður fyrir svona sveitauppákomu. Sól, hiti og logn. Það var hátíðarstemmning á bílastæðinu.

Inni á matarmessunni voru allskonar, litlir matarframleiðendur frá Jótlandi  (sennilega 10-15) sem sýndu vöru sína. Spægipylsugerðarmenn, ostagerðarmenn, víninnflytjendur, brauðgerðarmenn … Allir höfðu sína bása og yfirbragðið hátíðarinnar var vinalegt og vörurnar kynntar af miklum ákafa. Það voru ekki margir gestir mættir í hlöðuna þótt ófáir væru á leiðinni, enda snemma morguns. Bílastæðafólkið sagði að þau ættu von á 9000 gestum. Ég var varla kominn inn úr hlöðudyrunum þegar ég rakst á lakkrísgerðarkonu sem stóð við einn af fremstu básum hlöðunnar. Og þar sem mér finnst lakkrís góður staldraði ég við til að hlusta á þéttvaxna, miðaldra konu kynna fyrir mér lakkrísinn sinn – sem því miður hafði agalega ómarkaðsvænt nafn. Sennilega var ég fyrsti gestur hennar.

„Ég er þrjósk og ef ég bít eitthvað í mig þá hætti ég ekki fyrr en mér hefur tekist ætlunarverk mitt.“ Þannig hóf hún kynninguna á sjálfri sér og lakkrísgerð sinni, lakkrískonan með sterka jóska framburðinn. Hún hafði augljóslega lagt mikið upp úr hárgreiðslunni í dag því ljósir lokkarnir bylgjuðust niður á axlir hennar. Hún brosti til mín. Hún hafði vinsamlegt bros.
„Þessi lakkrís hér,“ hún benti á innpakkaða lakkrísstöng, „er árangur tveggja ára þrotlausrar þróunarvinnu. Þrisvar í viku hef ég soðið 8 kíló af lakkrís og hent jafnóðum þar sem ég hef ekki verið ánægð með áferðina. Fyrst nú tveimur árum eftir að ég byrjaði er ég ánægð með lakkrísinn. Nú er hann fullkominn. Nú erum við tilbúin að hefja sölu.“

Ég leit yfir borðið þar sem lakkrísstöngum í þremur mismunandi umbúðum hafði verið komið fyrir. Eitt er víst að umbúðirnar einar og sér seldu ekki lakkrísinn. Nú otaði hún skál með lakkrísbitum að mér. „Viltu smakka?“ Hún brosti aftur.

Ég vildi smakka, satt að segja var ég spenntur að bragða lakkrís sem hafði gengið í gegnum þetta linnulausa þróunarstarf. Ég valdi lakkrís með saltbragði. Ég var eiginlega ekki búinn að láta litla lakkrísbútinn liggja meira en nokkrar sekúndur á tungunni þegar ég fékk sterka löngun til að hrækja. Andlit mitt hefur örugglega afmyndast í skelfingu, því lakkrískonan sem hafði verið eitt eftirvæntingarbros, missti andlitið og starði agndofa af undrun á mig. Ég reyndi að berjast við að koma lakkrísnum niður sem satt að segja bragðaðist af einhverju allt öðru en lakkrís. Með tárin í augunum leit ég á konuna, og sagði mér til afsökunar að ég væri bara ekki vanur lakkrís með saltbragði, en þetta væri aldeilis áhugaverð tilraun. Ég treysti mér ekki að smakka „sæta“ lakkrísinn. Ég kvaddi konuna og óskaði henni alls hins besta með lakkrísgerðina.

Nú þegar ég sit inni á heimili mínu á Norður-Sjálandi og skrifa þessi orð hef ég töluverðar áhyggjur af þessu lakkrísævintýri og þessar áhyggjur hafa eiginlega elt mig í allan dag eftir þjóðvegunum í Jótlandi.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.