Uppburðarlítill drengur með gamaldags hárgreiðslu

Þótt pósturinn hér í Espergærde eigi ekki að vinna í dag, því í dag er annar í hvítasunnu, sá hann sig knúinn til að koma og banka uppá hjá okkur í morgun. Pósturinn okkar er einmana maður og safnar dvd-diskum með kvikmyndum, sérstaklega frægum spennumyndum. Hann er ekki gefinn fyrir Tarantino eða Cohen bræður. Það hefur hann sagt mér. Uppáhaldsmyndir hans eru: Lögregluskólinn 1-9. Hann verður bæði upp með sér og glaður ef ég færi honum eitthvað sem ég tel að veki áhuga hans. Harðfiskur er í sérstöku uppáhaldi..

Í dag kom hann ekki í póstbúningnum sínum, sem hann ber samviskusamlega á vinnudögum. Rauð flíspeysa með rennilás og gult póstmerki á brjóstinu. Gráar buxur með stífu broti og rautt kaskeiti með gráu deri. Þessum búningi klæðist hann dagsdaglega og þegar þessi feimni póstmaður bankaði upp á hjá mér í dag í hvítum stuttermabol og bláum gallabuxum þekkti ég hann ekki strax.

Ég opnaði dyrnar og þessi uppburðarlitli drengur með gamaldags hárgreiðslu stóð  fyrir utan dyrnar  hjá mér og einkennisbúningurinn var fjarri svo ég hafði ekki hugmynd um hver það var sem hafði komið sér fyrir á tröppunum fyrir framan heimili mitt og hringt á dyrabjölluna. Ég sagði því bara hressilega góðan daginn og beið eftir að maðurinn á tröppunum bæri upp erindi sitt. Hann horfði forviða á mig og átti augljóslega erfitt með að skilja að ég þekkti hann ekki svona borgarlega klæddan. Hann starði því á mig, var hikandi og kom ekki upp orði. Ég endurtók þess vegna mína góðu kveðju.

„Góðan daginn. Hvað get ég gert fyrir þig?“
„Sæll … ég er … ég er …“ svo kom löng þögn.
„Sæll …?
„Ég er með pakka til þín.“
„Pakka?“
Hann rétti mér pakka í brúnum umbúðapappír með frímerki frá Íslandi. Utanáskirftin var bæði óskýr og klunnaleg.
„Já, ég þorði ekki annað en að koma með hann núna þótt það sé frídagur. Þú varst ekki heima á fimmtudaginn þegar ég kom fyrst með pakkann  og heldur ekki um helgina. Ég var hræddur um að þetta væri mikilvæg sending frá heimalandinu …“ Hann horfði afsakandi á mig og rétti fram þennan frumstæða pakka.
Nú þekkti ég allt í einu póstmanninn minn svo ég rak upp undrunaróp.
„Nei, ert þetta þú. Ég þekki þig ekki í þessum fínu fötum. Fyrirgefðu!“
Ég sá léttinn í augunum á póstmanninum.

Ég tók við pakkanum og þakkaði honum ógurlega fyrir hugulsemina og hljóp út í skúr til að finna harðfiskpakka fyrir hann. Hann gat maulað harðfiskinn næst þegar hann sæi Lögregluskólann.

p.s. innihald póstpakkans reyndist alls ekki mikilvægt fyrir mig.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.