„Ég vildi svona aðeins átta mig á þér. Ég sé þig svo oft.“

Í gær var ég á leið til vinnu eftir að hafa farið heim að borða hádegismat. Það er heitt í Danmörku þessa dagana, sólin skín ofan af himninum og geislar hennar eru heitir. Golan sem blæs úr austri er líka heit. Ég gekk greitt eftir Søbækvej, götunni sem ég bý við, og var í mínum eigin þönkum þegar ég var skyndilega ávarpaður af manni sem ég veit að býr líka á Søbækvej; bara nokkrum húsum neðar en mitt eigið hús. Maðurinn var á hjóli, gamaldags hjóli sem í mínu ungdæmi var kallað kappaksturshjól og hefur hrútshornsstýri.
„Veðrið er aldeilis gott þessa dagana,“ sagði maðurinn og ég sneri mér við því hann hafði hjólað framhjá mér en hafði náð að stoppa svona tveimur metrum fyrir aftan mig. Ég tók eftir því að hann hafði sett sig í harla undarlega stellingu til að ávarpa mig af hjólinu. Hann hallaði sér fram á stýrið og hafði komið höfðinu nánast undir eigin handarkrika til að horfa á mig þar sem ég stóð fyrir aftan hann.
„Já, ljómandi fínt,“ svaraði ég og staldraði aðeins við til að líta á manninn, en gekk svo áfram því ég hafði enga þörf á lengra samtali.
„Þú heldur alveg hitann út?“
Ég leit aftur fyrir mig og enn var maðurinn í þessari afkáralegu stellingu. Hann er með gamalt, sítt hár frá hippatímanum sem hann hefur augljóslega ekki klippt í 30 ár. Hárið er orðið grátt og nú hékk það niður á hrútshornsstýrið. Hann er líka með gráa, þykka barta.

Ekki veit ég af hverju hann bar upp þessa spurningu. Kannski fannst honum ég kappklæddur. En ég var í jakka utan yfir stuttermaskyrtu. Mér fannst ég bara nokkuð fínn. Töluvert smart. Chick, eins og Lars kallar það.
„Já, já ég get alveg þolað hitann,“ svaraði ég.
Og svo kom óvænt spurning frá síðhærða manninum.
„Ertu atvinnulaus? Ertu ekki í vinnu?“
Það tók mig eitt augnablik að átta mig á spurningunni og ég þurfti að vinna umhugsunartíma. Ég gekk því í áttina til hans. Þannig liðu nokkrar sekúndur sem ég notaði til að meta aðstæðurnar. Hann reisti sig upp og sneri sér betur að mér.
„Nei, ég er ekki atvinnulaus.“
„Hvað gerirðu?“
„Hvað geri ég?“ Ég flissaði. „Þetta er góð spurning.“
Hann horfði eftirvæntingarfullur á mig en sagði ekkert. Hann beið þess að ég upplýsti hann um starf mitt. Honum fannst hann augljóslega þurfa að vita við hvaða atvinnuvegi ég þjónaði þar sem við bjuggum í sömu götu.
„Ja … ég hef rekið bókaforlag í …“
„Bóka … hvað?“
„Bókaútgáfu, ég hef gefið út bækur í mörg ár en nú hef ég selt forlagið. Í dag hef ég nokkur járn í eldinum. Ég þýði meðal annars bækur yfir á íslensku.“
„Já, eigið fyrirtæki…  Ég er líka með eigið fyrirtæki. Það eru flestir hér í götunni. Þess vegna eru hér engin innbrot. Hér er fólk heima á daginn. Ég held allri fjölskyldunni minni uppi með tekjunum af fyrirtækinu sem ég hef átt í um  það bil tuttugu ár.“
Nú hefði verið eðlilegast að ég spyrði við hvað hann starfaði. Ég gerði það ekki heldur jánkaði og kvaddi hann síðan. Ég veit að hann er maðurinn sem fann upp dúkkurnar sem bílaframleiðendur nota til að mæla öryggi farþega í árekstri ökutækja. Hann hefur einkarétt á þessum dúkkum, það hef ég heyrt frá öðrum íbúa götunnar.
„Já, blessaður …“ sagði hann undrandi yfir því að ég var svona áhugalítill um spjall. Hann hafði augljóslega hlakkað til lengra samtals. „Já, ég vildi svona aðeins átta mig á þér. Ég sé þig svo oft …“ bætti hann svo við.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.