Erótíska skáldkonan

Hér í bænum, sem er ekki sérlega stór því hér búa einungis um það bil 10.000 manns, eru tveir af bæjarbúum skáld. Ég held að rithöfundarnir séu ekki fleiri. Ég þekki annan höfundinn því hann spilar bæði tennis og fótbolta. (Hann hefur að vísu ekki komist í fótboltaliðið en hann mætir á æfingar.) Hann skrifar barnabækur sem hann gefur sjálfur út. Ég var auðvitað forvitinn að gægjast í bók eftir hann og keypti því eina bók og las hana fyrir Davíð. Þetta var fyrir nokkrum árum. Ég verð að viðurkenna það hér og nú að mér fannst bókin ekki góð. Barnasagan sem ég las fyrir Davið var hvorki áhugaverð, frumleg, fyndin né vel skrifuð. Þótt ég sé ekki hrifinn af bókum skáldsins kann ég vel við manninn, líka þó að hann sé ekki sérlega áhugverður rithöfundur að mínu mati.

Hinn rithöfundurinn sem býr hér í bænum er öllu þekktari, bæði innan  bæjarins sem utan.  Hún skrifar erótískar bókmenntir. Eða ég held að þessi bókmenntagrein heiti það. Sögur hennar fjalla um karla og konur sem hittast, oft á afviknum stað eða utan sjónmáls annars fólks og eftir skrýtinn forleik eiga þau samfarir, karlinn og konan. Kynlífi þessara einstaklinga er svo lýst af töluverðri nákvæmni. Ég las eina af bókum hennar, smásagnasafn, fyrir nokkrum árum. Prentari nokkur var vanur að færa okkur prufur af bókum sem hann prentaði og þessi bók skáldkonunnar var ein af þeim prentprufum sem hann færði okkur. Ekki man ég hvað var sérstakt við prentverkið.

Ég minnist á þetta hér þar sem ég hitti skáldkonuna á afviknum stað í dag, eða að minnsta kosti úr sjónmáli annars fólks. Fyrst þekkti ég ekki konuna sem nálgaðist mig þar sem ég sat á hinni svokölluðu Skólaströnd hér í bænum og naut sólarinnar við hafið. Hún kom gangandi í áttina til mín og ætlaði augljóslega að fá sér sundsprett. Í bænum mínum eru margir sem stunda sjósund. Hún var einungis klædd  baðsloppi og á fótunum hafði hún sandala. Hvítt handklæði hafði hún lagt yfir axlirnar. Hún var ekki vitund spéhrædd því hún lagði frá sér handklæðið fáum metrum frá mér –  þótt eðlilegra hefði verið að velja stað aðeins fjær því plássið var nóg –  og byrjaði að afklæðast. Ég leit á hana og kinkaði kolli og þegar hún þekkti mig lifnaði hún við og svaraði kveðju minni elskulega. „Nei, komdu sæll og blessaður.“ Þetta sagði hún af miklum innileik eins og við þekktumst betur en við í raun gerum. Þarna stóð hún fáklædd og skælbrosandi. Mér datt auðvitað strax í hug erótísku sögurnar hennar um karl og konu sem hittist á afviknum stað og eiga svo sérkennilegan forleik að samförum. Ég var því kannski frekar þurr á manninn þegar ég svaraði, „sæl,“ og reyndi þar með að binda endi á þessi samskipti okkar

„Nei, hvernig gengur lífið? Ertu ekki búinn að selja forlagið. Ég hef svo oft hugsað til þín. Hvernig gengur?“ Hún talaði eins og hún væri mjög áhugasöm um hagi mína. Nú hafði hún lagt baðsloppinn á stein og kom nú enn nær mér. Undir baðsloppnum hafði leynst rauður sundbolur af nýjustu gerð. Ég átti erfitt að má úr huganum myndir úr sögum hennar sem rifjuðust nú upp ein af annarri á örskotsstundu þarna á meðan hún tiplaði á fjörusteinunum í áttina til mín. Sennilega hef ég verið alveg stjarfur því mér datt ekkert í hug til að segja. Ég vonaði að hún gæti ekki lesið hugsanir mínar því fátt gæti verið neyðarlegra þarna utan sjónmáls. En á sama tíma var ég viss um að hugsanir mínar stæðu skrifaðar utan mér … erótísku sögur skáldskonunnar voru efst í  huga mér.

Ég náði að stynja upp: „Það gengur bara ljómandi vel. En hjá þér? Ertu að skrifa eitthvað þessa dagana?“

Ég sá samstundis eftir að hafa borið upp þessa kjánalegu spurningu og óttaðist að hún færi að segja mér frá söguþræði nýju erótísku sögunnar sinnar. Ég leit flóttalega í kringum mig til að sjá hvort einhver væri nálægur. Hún kom alveg til mín og stóð nú og setti hárteygju í sína gylltu lokka í sólinni og lagfærði síðan nýja, rauða bíkiníð sitt á meðan hún sagði mér frá ritstíflunni sem hún hefði mátt berjast við síðustu vikur og mánuði. Hana vantaði eitthvað til að koma andanum á flug. Hún hefði búið í Saudi-Arabíu frá áramótum og þar væri allt svo kynlaust og þrúgandi að hún hefði gersamlega þornað upp.

„Einmitt,“ svaraði ég.
„Ætlarðu að fá þér sundsprett?“ spurði hún.
„Nei, ég kann ekki að synda,“ svaraði ég.
„Jú, auðvitað kanntu að synda. Þetta er svo hressandi að skella sér út í vatnið, maður lifnar allur við. Komdu ….“
„Jahá, nei, ég er á leiðinni út í bakarí og það er beðið eftir mér. En … Gaman að hitta þig …“
Ég sem segi aldrei ‘gaman að hitta þig’ þegar ég hitti fólk. Aldrei. Nú var ég orðin eins og persóna í sögunum hennar. Svo ég flýtt mér að bæta við: „Við sjáumst …“

Og svo skundaði ég af stað og þegar ég leit um öxl sá ég að hún óð út út í vatnið og veifaði glaðlega til mín.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.