Hinn forvitni uppfinningamaður.

Í síðustu viku var ég í nokkurs konar yfirheyrslu hjá manni sem býr í sömu götu og ég, hinni fínu og hæðóttu götu Søbækvej. Hann er frægur hér í Espergærde fyrir að vera maðurinn með einkaleyfið á tilraunadúkkunum sem menn nota til að setja í framsæti bíla í prufuárekstrum. Á honum má skilja að einkaleyfið sé arðbær eign. Það var satt að segja í fyrsta skipti í öll þau ár sem við höfum búið við sömu götu að við höfum tekið tal saman – og ekki var það að mínu frumkvæði.

Af einhverjum ástæðum – sennilega fyrir tilviljun – hittumst við nú úti á götu nánast á hverjum degi, ég og síðhærði einkaleyfishafinn. Hann hafði í fyrsta samtali okkar látið uppi að hann hafi haft á tilfinningunni að ég væri atvinnulaus. Það væri sennilegasta skýring á ráfi mínu eftir götunni á miðjum degi. En ég hafði sagt honum að ég væri um þessar mundir að þýða bók yfir á íslensku og því alls ekki atvinnulaus. Þvert á móti.

Næsta dag þegar ég hitti hann vildi svo til að ég hafði risastóran kassa í fanginu. Ég hafði fengið 30 l. stáltunnu senda með póstinum og bar hana í kassa upp á skrifstofu frá heimili mínu þegar ég rakst á þennan brosmilda uppfinningamann. Hann kom hjólandi á fullri ferð á kappaksturshjólinu sínu með hrútahornsstýrinu. „Hó!“ hrópaði hann þegar ég kom auga á mig arkandi eftir götunni með stóra pappakassann. „Það á aldeilis að þýða í dag!“
„Hehe,“ sagði ég kurteislega og skundaði áfram.

Næsta dag var ég enn á vappi eftir Søbækvej og nú með tösku fyrir borvél meðferðis. BOSCH stendur á grænu borvélatöskunni minni og mynd af borvél prýðir alla hlið töskunnar. Ég þurfti nefnilega að bora gat á stáltankinn til að koma vatnslás þar fyrir og þess vegna hafði ég borvélina meðferðis. Einhvern veginn hafði ég tilfinningunni að ég mundi hitta uppfinningamanninn og velti mjög fyrir mér hvaða komment hann kæmi með. Ég var eiginlega sloppinn, búinn að ganga Søbækvej endilangan og hafði beygt upp Stockholmsvej þegar vinur minn með gráu hárlufsurnar kom brunandi á kappaksturshjólinu. Hann ljómaði þegar hann sá mig. „Hó, ertu með borvél?“ sagði hann og snarstoppaði til að virða fyrir sér borvélatöskuna. „Hvað ertu að fara að bora?“
„Ég þarf bara að bora svolítið uppi á skrifstofu,“ svara ég.
„Er það leyndarmál?“
„Hvað er leyndarmál?“
„Það sem þú ætlar að bora?“
„Nei, það er ekkert leyndarmál!“
Hann horfði þegjandi á mig og ætlaði augljóslega að þegja fram skýringar mínar á borvélinni. En ég er ekki svona auðveld bráð forvitinna uppfinningamanna. Ég kvaddi manninn.

Í morgun gekk ég til vinnu með veiðistöng. Davíð var á leið í bátsferð með bekknum sínum og þau taka lestina frá lestarstöðinni til Helsingør þar sem báturinn leggur frá landi. Ég bauðst til að ganga með veiðistöngina fyrir hann þá gæti hann hjólað. Ég gekk af stað og eiginlega vaknaði sú hugsun um leið og ég trampaði eftir götunni með veiðistöngina yfir öxlinni að ég mundi örugglega mæta síðhærða uppfinningamanninum. Viti menn, ég hafði ekki gengið lengi eftir Søbækvej þegar hann kom þjótandi á kappaksturshjólinu sínu. Þunnu, síðu hárlufsurnar stóðu eins og strókur aftur úr honum. Um leið og hann kom auga á mig með veiðistöngina snarbremsaði  hann svo það ískraði í dekkjum.
„Nei, ertu að fara að veiða?“
„Nei, ég geng bara með veiðistöng.“
„Þetta er aldeilis veður til að veiða í. Alveg rétta veðrið.“ (Það rigndi kröftuglega í morgun). Hvar veiðirðu?“
„Ég er ekkert að fara að veiða …“
„Hvað ertu að gera með veiðistöng?“ Hann starði opinmynntur á mig, eins og ekkert gæti verið fráleitara að ganga með veiðistöng án þess að veiða.
„Ekkert sérstakt. Ég er bara úti að ganga með veiðistöng.“

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.