Samtal klukkan 5:17 að morgni

„Þú ert aldeilis snemma á fótum,“ sagði ég þegar ég mætti konunni með hundinn eldsnemma í morgun. Klukkan var rétt rúmlega fimm. Sus er á leið til Parísar og verður þar í viku með vinkonu sinni. Hún flaug snemma í morgun og ég fylgdi henni út á lestarstöð svo hún gæti tekið 05:09 lestina til Kastrup.

Ég var sem sagt á leið heim frá lestarstöðinni þegar ég mætti konunni með hundinn. Hvíti púðluhundurinn hékk í hundasnúrunni á sinni endalausu göngu um litla bæinn minn með eiganda sínum. Hann er skiljanlega fótalúinn þessi hundur.

Já. „Þú ert aldeilis snemma á fótum,“ sagði ég. Ég komst ekki hjá því að spjalla við konuna, það voru ekki aðrir á ferli svo snemmmorguns (þrjú emm, yo!).
„Já, ég get ekki sofið,“ sagði hún og horfði hálfsorgmædd á mig. Hún ýtti hárinu aðeins frá enninu. Ég held að hárið sé hennar höfuðstolt. Hún er nefnilega með flott hár, konan með hundinn. Dökkrautt, sítt hár með frekar litlum, nátturulegum krullum sem velta niður axlirnar.
„Áttu erfitt með að sofa?“ sagði ég og reyndi að vera almennilegur og sýna henni samúð.
„Já, ég vakna alltaf upp með andfælum þegar ég hef sofið í svona tvo eða þrjá tíma. Mig dreymir alltaf sama drauminn,“ svaraði hún og ég óttaðist að hún færi að gráta því ég sá að henni vöknaði um augun.
„Nú, það er ekki gott,“ sagði ég og reyndi að vera hughreystandi.
„Mig dreymir að ég fari á klóstettið í flugvél og þegar ég sturta niður sturtast ég sjálf með og steypist út úr flugvélinni og hrapa til jarðar. Það er mjög óþægilegt að vakna við þetta.“
„Ég trúi því …“
„Ég get ekki sofnað aftur ég er svo hrædd um að dreyma sama drauminn aftur og vakna við það að ég sé að hrapa til jarðar.“

Svona var samtal mitt við konuna með hundinn klukkan 5:17 í morgun.

Nú erum við drengir einir heima og það þýðir herradagskrá. Strax í gær var kvöldmáltíð dagsins í dag ákveðin: „Pabbs-ret“ eins og rétturinn heitir á tungumáli heimilisins.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.