Ég verð heima í dag; ekkert ráf út á skrifstofu. Davíð er heima vegna magaverkja svo hann fer ekki í skólann í dag og ég verð honum hér til halds og traust.
Ég fékk óvænta heimsókn frá ungum Íslendingi í gær sem er staddur hér í Danmörku. Við hittumst fyrir tilviljun inni í Kaupmannahöfn fyrir nokkrum dögum þar sem hann gaf sig fram við mig og sagðist vita hver ég væri.
„Fyrirgefðu, ertu ekki Snæbjörn?“
„Jú, ég er Snæbjörn.“ Ég virti þennan unga mann fyrir mér en ég kannaðist ekkert við hann. Ég hafði sest á kaffistétt til að fá mér í skyndi einn kaffibolla. Hann hafði setið á borði fyrir aftan mig.
„Við þekkjumst ekkert,“ bætti hann svo við. „Ég þekki aðeins til gamla forlagsins þíns og svo les ég dagbókina þína.“
What! Ég varð steinhissa að hitta ókunnugan mann sem læsi Kaktusinn. Við spjölluðum því saman og ég kunni strax vel við þennan unga, auðmjúka mann sem vinnur við tölvur eða forritun eða eitthvað ógurlega flókið sem ég skildi ekki alveg í sambandi við tölvur. Hann er á eilífu landaflakki, réttara sagt heimshornaflakki. Ég sagði honum að koma borða með okkur drengjum sem núna erum einir heima. Hann virtist glaður yfir heimboðinu og þáði það. Hér birtist hann svo í gær og borðaði herramat úti á veröndinni með okkur. Það er svo gott veður á Søbækvej um þessar mundir að það er hreint ótrúlegt og allt verður bæði fallegt og gott í svona blíðu.
Ég hef nær alltaf gaman að heimsóknum frá Íslandi, enda bara vel valdir einstaklingar sem koma hingað í heimsókn. Heimsókn þessa Íslendings var engin undantekning. Það er ekki oft sem maður hittir jafn fróða, launfyndna og hægverska menn og þennan unga mann. Ég vona að við getum haldið sambandi.
Í kvöld er kappleikur í fótbolta hjá mér. Við spilum á móti neðsta liðinu í deildinni og þjálfarinn krefst sigurs. Við erum um miðja deild sem er óvanalegt því við höfum barist um toppsætið öll þau ár sem ég hef spilað með liðinu. Þjálfarinn var ánægður með mig eftir síðasta leik: „Zlatan, det var en fornøjelse at se dig spille i dag. Ikke en fejlaflevering og ikke et duel som du tabte.“ Ég veit ekki hvort þetta var rétt, en hólið var gott.