Af næturbrölti

Klukkan var rétt rúmlega þrjú þegar ég vaknaði við ámátlegt mjálm við svaladyrnar hjá mér. Það tók mig augnablik að átta mig á þessum hljóðum, og hvaðan þau komu, en ég heyrði fljótlega að þetta var kötturinn minn sem vældi og var bæði einmana og leiður. Hann hafði þörf fyrir ástúð. Hann hafði klifrað upp í tré og þaðan upp á þak og upp á svalir og að svefnherbergisdyrunum þar sem ég svaf eins og steinn.

Auðvitað bjargaði ég kettinum og gekk með hann niður. Ég lagðist svo aftur upp í rúm. En ég gat ekki sofnað. Ég hafði spilað fótboltaleik í gær (unnum 9-0, yo!) á gífurlega þurrum og hörðum velli svo kroppurinn á mér var ein logandi und. Ég gat bara ekki sofnað aftur. Ég teygði mig eftir símanum mínum til að sjá hvað klukkan væri en sá um leið að ég hafði fengið næturbréf frá gömlum félaga mínum. Ég kíki aldrei á símann minn um nætur nema til að sjá á klukkuna. Ég lagði því símann frá mér og reyndi að sofa. Það var ómögulegt að sofna, sama hvað ég gerði; sparkaði af mér sænginni, stóð upp og opnaði fleiri glugga, pissaði, fékk mér vatn, sneri mér á hina hliðina, lagðist á magann, bakið, hliðina … ekkert gekk. Ég tók því bókina sem ég er að lesa; nýja bók sem ég fékk í gær um danska knattspyrnumanninn William Kvist, leikmann FCK, og landsliðsins, (var í Stuttgart, Fulham…). Hann hefur óvenjulega sýn á fótbolta og það vekur áhuga minn á bókinni. Samhliða fótboltaferlinum hefur hann lagt stund á nám í  heimspeki og viðskiptum. Hann hefur „mental-trainer“ sér til halds og traust í hverri viku. Í hans huga er fótboltinn leið til frelsis. Jagten på friheden heitir bókin.  Ég las og las en ég fann að ég mundi ekki sofna.

Ég tók því símann minn til að lesa næturbréf félaga míns. Það var langt bréf og eftir lesturinn hringsnerust hugsanirnar í hausnum á mér. Ég ákvað að fara á fætur. Ég er því eiginlega ósofinn og það er ég ekki ánægður með því ég hafði mikil áform í dag.

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.