––> næsta hugsun ––>

Ég lá á bakinu á fjólubláu jógamottunni í jógasalnum í morgun. Það var komið að slökun, síðasti liður jógatímans og sá besti. Að liggja og slappa af í fimm mínútur eftir 85 mínútna jógakvalirnar er mjög gott. Hugsanirnar koma einhvern veginn fljúgandi til mín þar sem ég ligg flatur á jógamottunni. Þær hringsnúast í höfðinu í nokkrar sekúndur og svo kemur óvænt næsta hugsun  … og í morgun komu þær svona, hugsanirnar:

  1. Undalegt fannst mér að fyrsta hugsun í afslöppun jógatímans snerist um pistil sem ég las í gær eða fyrradag eftir Eirík Örn Norðdahl um kynskiptingu og fleira í þeim dúr. Og ég undraði mig á því að ég skildi varla orð af því sem hann skrifaði. Ég var alveg út á þekju. Sennilega er þessi kynjapælingarheimur svo fjarri mér, það kviknar bara enginn áhugi á málefninu innra með mér, mér finnst þessar vangaveltur bara leiðinlegar. Á sama hátt og ég get aldrei notið þess að hlusta á fólk tala um mótorcross, formúlu 1, hjólreiðar, saumaskap, snyrtiolíur  … Tungumálið sem Eiríkur Örn notar til að tjá sig um málefni kynskiptingar er líka svo fjarri mér. Þetta er ekki íslenska sem ég skil … kannski er ég búinn að vera of lengi í útlöndum. –> næsta hugsun –>
  2. Mér finnst miklu skemmtilegra að lesa pistla Auðar Jónsdóttur, ég skil að minnsta kosti hvað hún segir, hvað hún er að hugsa … Hún skrifar leikandi létt og mér finnst bæði bros og hjarta fylgja skrifum hennar –> næsta hugsun –>
  3. Ég sakna stundum bloggsins hans Braga Ólafssonar. Ég held að hann sé hættur að skrifa pistla á vefsíðuna sína. Eða kannski hefur hann flutt þá … Stundum var  skemmtilegt að lesa skrif hans og stundum fyllti hann síðurnar af algerri þvælu. Fyrir kom að ég hugsaði með mér að það væri eins og vantaði svolítið stærri víddir í hugarheim skáldsins, hann getur verið svo einóður, svo þröngt rör sem hann horfir í gegnum …  en oftast hafði ég gaman að því sem hann skrifaði  –> næsta hugsun –>
  4. Skyndilega sá ég fyrir mér markskotið sem ég átti og hafnaði í stöng í fótboltakappleik vikunnar. Ég sá fyrir mér hvernig boltinn þaut á milli varnarmannanna og small svo í stönginni. Þetta er góð tilfinning. Gott hljóð þegar bolti smellur í stöng … –> næsta hugsun –>
  5. Bókin sem ég er að lesa, eða var réttara sagt að klára í nótt, um fótboltamanninn William Kvist er  ágæt. Ég kann vel við það þegar höfundur leggur sig svo augljóslega fram við að reyna segja satt. Kvist vill svo sannarlega útskýra fyrir mér, á heiðarlegan hátt, hvernig hann hugsar, hvernig það er að vera fótboltamaður og vilja ná extra vídd út úr lífi sínu með því að spila fótbolta –> næsta hugsun –>
  6. Rosalega var bókin sem Þorgrímur Þráinsson skrifaði um fótboltalandsliðið léleg. Ég las hana um daginn og ég var steinhissa. Hrikalega misnotar hann upplagt tækifæri að skrifa skemmtilega bók um þetta íslenska fótboltaævintýri. Hann Þorgrímur er innanbúðarmaður hjá landsliðinu. Hann vantar allan húmor. Hann reynir þó að segja skemmtisögur, algerlega mislukkaðar að mínu mati,  sem snúast einhvern veginn um það hvað það er óþægilegt að sitja í þrengslum í langan tíma í lélegum bíl á vondum vegum í fátækari hluta Evrópu … hahahaha, rosalega fyndið!  –> næsta hugsun –>
  7. Já það er merkilegt með þessar fótboltabækur sem ég les. Þær eru ekki sérstaklega áhugaverðar … ég les þær bara af því að ég ætla sjálfur að skrifa tímamótabók með Pep Guardiola. –> næsta hugsun –>
  8. Ég fékk sent handrit að íslenskri skáldsögu í nótt. Ég las fyrsta kaflann og fannst hann frekar skemmtilegur. Það var dálítið sposkur tónn í skrifunum, sjálfsírónía sem var skemmtileg … ætli ég klári ekki að lesa þessa bók í kvöld … mér skilst að þetta sé fyrsta skáldsaga viðkomandi …
  9. Verð að muna að kaupa mjólk og haframjöl á leiðinni heim … –> næsta hugsun –>

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.