„Ég byrjaði að skrifa af því að ég átti svo svakalega erfitt með að gera mig skiljanlegan í samtölum. Ég var alltaf óstyrkur og feiminn og komst fljótlega að því að tungumálið sem ég notaði í riti var miklu ríkara og dýpra en þau fáu orð sem mér tókst að hósta upp í samtölum við annað fólk. Jafnvel við þá sem mér eru nánir.“
„Já,“ svaraði ég. „Ég skil hvað þú átt við.“
„Þegar ég var yngri reyndi ég af öllu hjarta að skrifa eins og ég hélt að skáld skrifuðu. Ég skrifaði um nóttina, ég reykti sígrettur (Kings) og ég drakk vín. Ég held að ég hafi ekki farið að sofa einn einasta morgun í tíu ár án þess að vera ofurölvi og vakna svo með algert black-out … En svo allt í einu uppgötvaði ég að þetta var alrangt. Ég skrifaði miklu betur á morgnana, ódrukkinn og reyklaus. Ég verð glaður þegar ég skrifa. Heilli, ef þú veist hvað ég meina.“
Þetta samtal átti ég klukkan átta í morgun úti á tennisvelli, eða réttara fyrir framan tennisvöllinn. Ég átti stefnumót við tennismótherja og beið eftir að hann mætti þegar til mín kom barnabókahöfundurinn sem býr hérna í bænum og spilar stundum tennis eins og ég. Ég veit ekki af hverju hann fór að segja mér þetta, sennilega af því að hann vissi að ég sit þessa dagana yfir þýðingu á bók frá einu tungumáli yfir á annað.
Ég tek fram að ég vann tennisleikinn, það er gott fyrir mig að vita það þegar ég les þessa færslu aftur í framtíðinni. Hagstæð úrslit hlýja manni um hjartaræturnar þótt langt sé liðið frá því að sjálfur leikurinn var spilaður. Úrslitin voru 6-2 mér í hag. Það er óvenjuheitt hér í Espergræde og ég þurfti að hafa fyrir sigrinum. Ég hljóp marga bolta uppi þrátt fyrir hitann og líkaminn var á suðumarki og ég var rennandi sveittur. Sennilega var ég líka þreyttur.
En eftir tennisleikinn hef ég verið uppi á svölum hérna heima hjá mér og málað. Ég er svakalegur. Alltaf þegar ég tek mér eitthvað verklegt fyrir hendur verð ég skítugur upp fyrir haus. Þess vegna mála ég á nærbuxunum svo fötin verði ekki útötuð í málningu. Nágranna mínum þótti þetta undarleg málningarklæðnaður. Hann hrópaði til mín, þar sem hann bjástraði við sláttuvél í garðinum hjá sér, (sem er nágrannagaður minn): „Ertu að mála alsber?“
„Já, er það kannski bannað í þessu landi?“ (Ég er alltaf hræddur um að gera eitthvað óviðeigandi í Danmörku.)
„Nei, nei, þetta er smart,“ sagði hann.
En nú er ég búinn að bogra á nærbuxunum (sem eru útataðar í málningu) yfir svalahandriði í fjóra klukkutíma og er allur orðinn skakkur. Ég tek pásu.
