Óvinur óvina minna

Í gær las ég viðtal við söngkonuna Björk Guðmundsdóttur í JyllandsPosten. Þetta var svosem hálfkvefað viðtal sem vakti engin hughrif hjá mér. Enda kannski fyrst og fremst sett á prent til að vekja áhuga fólks á tónleikum hennar í Danmörku á næstu dögum. En ég nefni þetta hér þar sem ein setning vakti þó áhuga minn. Björk segir eitthvað á þá leið að Ísland sé svo lítið land, svo lítið samfélag, að maður verði að vera vinur óvina sinna. Maður komist ekki hjá því að hitta óvini sína í fámenninu á Íslandi. Noh, hugsaði ég, af því að ég er í Danmörku og þá segir maður noh ef maður er hissa. Er þetta ekki svolítið hræsnisfull afstaða, spurði ég sjálfan mig yfir JyllandsPosten. Ef ég tala fyrir sjálfan mig gæti ég ekki látið eins og ég sé vinur óvina minna. Ég er óvinur óvina minna af öllu mínu hjarta. Ég sparka ekki í þá þegar ég hitti þá, ég ræðst ekki á þá með ósvífni og formælingum. Nei. Ef ég hitti þá gæti ég tekið upp á því að heilsa en aldrei með vinsemd. Aldrei gæti ég látist vera vinur óvina minna, ég kæri mig ekki um persónurnar bak við óvini mína.

Ég sagði frá því á dögunum að ég hefði hitt höfund nokkurra erótískra bóka hér á ströndinni og að hún væri ein tveggja höfunda hér í bænum. Í gær uppgötvaði ég að þriðji rithöfundurinn er fluttur í bæinn. Ég sá á göngu minni að Franz Kafka hefur komið sér fyrir á Gamle Strandvej 209C stue, 3060 Espergærde. Hann er líka rithöfundur. Ég er viss um að þetta eru bæði góðar fréttir fyrir rithöfundasamfélagið hér í bænum og fyrir þá Kafka feðga, Hálf-Bab og Baba-Pab eins og þeir eru stundum kallaðir Ástráður og Eysteinn.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.