Ég las í morgun að vinur minn Pep Guardiola hefði verið ásakaður af Yaya Toure um að vera vondur við leikmenn ættaða frá Afríku. Yaya Toure er sjálfur frá Fílabeinsströndinni, sem er land í Afríku, og hann hefur spilað í mörg ár fyrir Manchester City. Nú er hann kominn á aldur, 35 ára, og fær því ekki samning um að spila áfram fyrir toppliðið. Þetta orsakar reiði hjá Yaya og hann ásakar því vin minn að hata afríska leikmenn, það sé skýring á að hann fái ekki samning. Ég verð að viðurkenna að ég trúi ekki að Pep láti húðlit ráða hverja hann noti og hverja hann noti ekki til að spila fótbolta fyrir lið sitt. Þetta er í mínum augum rasismi hjá Yaya; að nýta minnihlutavopnið til að berja á Pep er bara slappt.
Ég verð æ þreyttari á því að fólki er endalaust skipt í lið, andstæðinga, karla á móti konum, ungir á móti gömlum, svartir á móti hvítum, borgarfólki á móti landsbyggðafólki. Ég trúi ekki á þetta. Ég trúi ekki að það sé gott að skipta alltaf öllum upp í fylkingar. Horfir fólk í raun og veru svona á heiminn?
Mér fannst ég geðveikt fyndinn í gær og notaði tíma í að vinna að fyndni minni í gærmorgun. Ég rakst nefnilega á póstkassa á gönguferð minni í fyrradag. Á honum stóð Kaffka, með tveimur effum. Mér þótti þetta sérkennilegt eftirnafn og minnti mig auðvitað mjög á tékkneska skáldið. Ég tók mynd af póstkassanum. Í gær setti ég myndina inn í photoshop og lagfærði hana svo merkingin á póstkassanum var breytt frá Kaffka yfir í Franz Kafka. Þetta þótti mér svakalega fyndið og setti þetta inn í dagbókina í gær og ég hélt að allir yrðu yfir sig hrifnir og sendu mér heillaóskir með nýja nágrannan, yrðu forvitnir að vita hvernig maður þetta væri, hvort þetta væri í alvöru rithöfundur … en, nei. Ekkert gerðist. Enginn tók eftir þessum skemmtilegheitum hjá mér, enginn skrifaði mér um þetta … öllum var hundsama um að ég hefði fengið svona stórmerkilegan nágranna; Franz Kafka.
Ég: Hó, Kafka eigum við að grilla saman í kvöld, ég á kaldan bjór í ísskápnum. Kemurðu yfir?
Kafka: Já, ég kem, kallinn minn. Ég þarf bara að setja punkt eftir síðustu snilldarsetninguna mína, svo kem ég.