Ég valdi rauðu skóna mína í morgun til að ganga í til vinnu. Ég leit á merkið inni í skónum og sá að þeir eru frá tískuhönnuðinum Paul Smith. Þetta voru skórnir til að ganga í sólskini til vinnu. Ég þekki ekki Paul Smith og veit ekki einu sinni hvort hann er góður skóhönnuður. En skórnir eru léttir og auðvelt að ganga í þeim stuttar vegalengdir.
Á leiðinni eftir Lindevej sem ég geng allaf þegar ég fer á skrifstofuna kom margt í huga mér
- Ég hugsaði um fótboltaleikinn sem ég spilaði í gær. Við unnum Hillerød, liðið sem þegar hefur tryggt sér deildarmeistaratitilinn í ár. Þetta var einn besti leikur liðsins okkar, við vorum einbeittir og harðir. Ég fékk gult spjald fyrir eina af mínum tæklingum. Ég fæ ekki oft gult spjald.
- Ég hugsaði um símtal sem ég átti við Kaldal í gær.
- Ég hugsaði um ferð mína til Íslands næstkomandi fimmtudag og þau verkefni sem ég hef í Íslandsferðinni … byggingarframkvæmdir, vegabréfsstúss, bankastúss, lögfræðingastúss…
- Ég hugsaði um myndband sem ég sá af Styrmi á hjóli í gær
- Ég hugsaði um íslensku skáldsöguna sem ég las í vikunni. Hún var frekar skemmtileg. Var einskonar autofiction, næstum eins og samsett blogginnlegg. Minnti að sum leyti á Knausgaard Min kamp. Kannski tókst höfundinum ekki á sama hátt að gera ómerkilega hluti mikilvæga. Hjá Knausgaard er á vissan hátt allt lagt undir. Bara að lesa lýsingar Knausgaards á göngu sinni með barnavagn meðfram umferðargötu verður á einhvern hátt spennandi.
- Ég hugsaði um fólkið sem ætlar að koma í kvöld í pizzu til okkar og hvort ég þyrfti að höggva meiri eldavið fyrir pizzaofninn.
- Ég hugsaði um þá tölvupósta sem ég þyrfti að senda … og fór að hafa áhyggjur af tölvupóstum sem ég sendi fyrr í vikunni og hef ekki fengið svar við.