Engin hystería hjá mínum manni

Það er að koma kvöld. Ég er búinn að elda mat, borða mat (grillaðan kjúkling með kartöflusalati), ganga frá í eldhúsinu og nú sest ég niður yfir Kaktusnum. Í hátölurunum flytur Nick Cave tónlist sína og Númi sem situr fyrir aftan mig segist ætla á næstu tónleika Nick Caves sem haldnir verða í Evrópu. Ég sagðist vilja splæsa á hann. Kannski fleiri af mínum börnum vilja mæta í mínu boði?

Ég hef ekki haft tíma til að segjast niður í allan dag. Snemma í morgun keyrðum við Davíð garðúrgang til Skipstrup (Sorpu) með kerru sem ég fékk lánaða og á bíl sem ég fékk hjá Lars. Bíllinn hans Lars er með það sem hér i landi kallast Jydekrog, sem sagt krókur fyrir kerru. Ég er ekki góður að keyra með kerru, það er að segja ég er ekki góður að bakka með kerru. En ég keyrði nokkrar ferðir til Skipstrup og Davíð kom með mér til að skemmta mér á leiðinni.

Í hádeginu (eftir að hafa gefið Núm og Davíð hádegismat, við erum aftur einir heima) spilaði ég tennis við Thomas. Sólin  skín í dag eins og alla daga og tennisvöllurinn er þurr eins og sandur í Sahara.

Þegar ég nálgaðist tennissvæðið, eftir hádegismat, sá ég að kunningi minn barnabókahöfundurinn stóð utan við einn af tennisvöllunum með tennistöskuna sína á bakinu og ráfaði um. Hann kom auga á mig og veifaði til mín. Hann snerist á hæli og kom lallandi í áttina til mín, niðurlútur og þungstígur.

„Hæ, Zlatan,“ sagði hann. Hann sveiflaði hendinni á svo undarlegan hátt upp á við að ég hélt að hann ætlaði að gefa mér high five. Ég var í þann mund að svara high five-inu þegar ég áttaði mig á að hann hafði bara lyft höndinni  til að ýta hárinu aftan á hnakkanum en ég var allt í einu kominn með mína hönd í high five stellinu. Hann horfði undrandi á mig og hálf hló.

„Hva… þú ert aldeilis í góðu skapi,“ sagði hann.
Ég hló líka.
„Veistu,“ sagði barnabókahöfundurinn. Og nú virtist hann ætla að vanda næstu setningu. Hann hafði allt í einu fengið áhugasaman hlustanda. „Ég lít á það sem verkefni mitt að skrifa.“
„Já?“ Ég var ekki viss um hvað hann ætlaði að segja mér. Ég leit á hann og hann var í djúpum þönkum.
„Ég skrifa á morgnana. Ég sest niður á skrifstofuna mína, sest við skrifborðið mitt og skrifa. Mottóið mitt er: Það er alltaf eitthvað sem hægt er að skrifa um, spurningin er bara hvað. Ég þoli ekki alla þessa hysteríu sem er í kringum rithöfunda og það að skrifa. Allt er svo flókið og erfitt. Í mínum huga snýst þetta bara um að setjast niður  og setja eitthvað á blað. Það er ekki flóknara!“
„Nei,“ sagði ég leit flóttalega í kringum mig.
„Við hvern ertu að fara að spila,“ spurði rithöfundurinn allt í einu.
„Ég veit ekki hvort þú þekkir hann, Thomas? … Thomas Dunk. “
„Nei. Ég er að bíða eftir félaga mínum. Ég vona að hann komi. Blessaður!“

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.