Sólin var löngu sest þegar ég settist á bekkinn á brautarstöðinni við Nørreport í gærkvöldi og beið eftir síðustu lest heim. Á öðrum bekk sat ung kona og drakk kampavín af stút þótt hún hefði meðferðis þetta fína kampavínsglas með gríðarháum stilk. Glasið hafði hún lagt tómt á stéttina við fætur sér. Mér vitanlega vorum við því þrjú sem höfðum sest á þessari stundu; sólin, unga konan í netsokkabuxunum og ég. Já, hún var í netsokkabuxum þessi kampavínskona og háhæluðu skórnir sem hún hafði á fótunum höfðu leðurbönd sem fóru svoleiðis yfir rist konunnar að þau mynduðu líka einskonar netmunstur.
Þótt ég sé glaðsinna að eðlisfari þá er ég áhyggjufullur maður með hug sem verður líka auðveldlega áhyggjufullur. Og ég hafði áhyggjur af þessari drukknu konu sem sat alein á trébekk á lestarstöð löngu eftir sólsetur. Hún var lokuð inni í sjálfri sér. Drakk ótt og títt stóra sopa af kampavíninu sínu. Hún virtist ekki taka eftir mér fyrr en allt í einu að hún leit upp. Augnaráðið var furðulega ódrukkið. „Elskið óvini yðar og biðjið fyrir þeim sem ofsækja yður,“ sagði hún skyndilega. Kannski er þetta ekki orðrétt haft eftir en svona hljóðar setningin í íslenskri þýðingu. Lengi sleppti hún ekki augunum af mér.
Ég gat ekkert gert fyrir þessa konu. Ég fylgdist bara með að hún kæmist ósködduð inn í síðustu lest á leið norður til Helsingør með viðkomu meðal annars í Humlebæk og Espergærde.