Reykjavíkurtjörn á rauntíma

Ég stend mig að því suma morgna að opna vefmyndavél Mílu yfir Reykjavíkurtjörn á tölvunni minni til að sjá mannlífið í miðbæ höfuðstaðarins. Venjulega sé ég ekki annað en kappklædda ferðamenn skoða endurnar undir gráum, regnvotum himni. Ég veit svo sem ekki hvað veldur þessari áráttu minni að vilja sjá Reykjavík á rauntíma. Ekki sakna ég borgarinnar svo mikið að ég íhugi að flytja til baka.

En á morgun flýg ég til Keflavíkur og tek  flugrúna til BSÍ. Flugrútan fer alltaf í taugarnar á mér vegna þess að maður þarf alltaf að bíða svo lengi eftir að ökumenn rútunnar ákveða að keyra af stað. Fyrst þarf langferðabíllinn að vera þéttsetinn fólki, fyrr er ekki ekið af stað. Og fólk situr þétt. Ég með mínar löngu lappir þarf að vefja skönkunum utan um hálsinn á mér til að geta ferðast þessa 45 km leið frá Keflavík til Reykjavíkur í sæti. Stundum finnst mér eins og það taki jafn langan tíma að fara frá Kaupmannahöfn til Keflavíkur og það tekur rútuna að aka frá flugvellinum í Keflavík til BSÍ. Nú nöldra ég.

En ég verð sem sagt í Reykjavík og nágrenni frá fimmtudegi fram á sunnudag. Þetta er viðvörun til þeirra sem vilja ekki verða á vegi mínum. Um leið er þetta ábending til þeirra sem eiga erindi við mig eða vilja hitta mig af einhverjum ástæðum.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.