Hin fallegu heimboð

Ég er kominn á Kastrup flugvöll. Kannski ætti ég að segja enn einu sinn, en þetta er nauðsynlegur viðkomustaður á leið minni til Reykjavíkur. Ég flýg klukkan 14:00 á dönskum tíma. Klukka er núna 13:13 og ég kominn á gate B3 þar sem upphafsstaður ferðlags míns frá Kastrup er. Ég er búinn að fá mér puslu, danska pulsu, það geri ég alltaf hér í Kastrup og kannski er það eini staðurinn í heiminum sem ég kaupi mér þessa unnu kjötvöru.

Annars var það gaman fyrir mig að skyndilega bárust mér óvæntir tölvupóstar í gær. Eftir að ég hætti að gefa út bækur hefur virkni tölvupóstsins míns dalað ansi mikið. Í gamla dag þótti mér ekki mikið að fá 100 mail á dag. En í dag eru það stórtíðindi ef ég fæ fleiri  en 15 alvöru tölvupósta yfir daginn. Í gær bárust mér þrjú óvænt tölvubréf.

Í gær, sem sagt,  hafði ég sagt eitthvað á þá leið að ég verði í Reykjavík og nágrenni frá fimmtudegi fram á sunnudag og að þetta væri viðvörun til þeirra sem vilja ekki verða á vegi mínum (þetta meina ég í alvöru). Um leið væri þetta ábending til þeirra sem ættu erindi við mig eða vildu hitta mig af einhverjum ástæðum. Þetta skrifaði ég hálfhugsunarlaust. En góðviljaðir einstaklingar, sem hafa lesið færsluna og hafa örugglega haldið að ég væri einmana í Reykjavík buðu mér í heimsókn til sín. Ótrúlega falleg heimboð!

Annars er ég hálfþreyttur á sjálfum mér. Ég er meira að segja svo langt leiddur að ég er farinn að hugsa hvort eitthvað sé að mér. Hvort ég sé veikur. Ég var á fótboltaæfingu í gær og þjálfarinn, sem er svo óánægður með 5. sætið í deildinni, hélt fund fyrir æfingu og sagði að við gætum ekki, sem stolt fótboltalið verið ánægðir með 5 sætið. Nú yrðum við að leggja harðar að okkur. Í gær var æfingin mjög erfið og mér fannst ég næstum þurfa að æla alla æfinguna. Mér er illt náranum, mér er illt í þremur tám á hægri fæti (þær eru örugglega brotnar, eða þannig) og mér er illt í vinstra hné (eftir leikinn í síðustu viku). Sumir liðsfélagar mínir eru 30 árum yngri en ég og mér finnst ég finna fyrir aldrinum.

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.