Síðustu dagar.

Það er  göfugt heilræði sem hljómar eitthvað á þá leið að sem karlmaður eigi maður ekki að tala um það sem heldur manni í góðu líkamlegu formi. Maður á ekki að gorta yfir að maður stundi cross-fit, hlaupi marathon, hjóli milljón kílómetra á dag á sérstaklega útbúnu reiðhjóli eða hvað maður annars stundar til að halda líkamanum í lagi.

Ég nefni þetta hér þar sem ég hef komið mér fyrir hér á skrifstofunni á lestarstöðinni í Espergærde og er algerlega kyrr: það eru einungis fingurnir sem hreyfast. Ég sit við skrifborðið mitt, skrifa á tölvuna það sem þarf að skrifa. Um leið hugsa ég að í hverju sem maður tekur sér fyrir hendur, hversu léttvægt sem það er, gefi maður sér nógu langan tíma til þess að nostra og vanda sig, verður athöfnin nánast að hugleiðslu. Að raka sig getur verið heimspekileg athöfn eins og Somerset Maugham sagði alltaf. Og þannig er það stundum með mig, einfaldan manninn, að fyrst þegar ég skrifa hugsanir mínar niður, gef mér tíma til þess, skil ég hvað ég er að hugsa.

En þessir fáu dagar í Reykjavík voru góðir dagar, eins og nánast alltaf þegar ég kem í heimsókn. Ég hafði að vísu ekki tíma til að gera svo margt. Ég notaði tímann til að sinna byggingarframkvæmdum, börnunum mínum, leggja parket með tengdasyninum og svo sá ég Ísland og Danmörk spila fótboltaleiki. Ég náði einginlega ekki öðru. Ég náði til dæmis ekki að þiggja hin góðu heimboð sem ég fékk, ég náði ekki að kaupa kókosbollur eins og ég ætlaði, ég náði ekki að kaupa mér íslenskar bækur fyrir sumarfríið … Allt í einu sat ég bara í flugvél á leið til baka.

Ég kom sem sagt heim í dag og þaut beint úr flugvélinni niður í bæ þar sem Óli arkitekt hafði skipulagt gönguferð um Kaupmannahöfn með sérstaka áherslu á húsbyggingarlist. Við skoðuðum meðal annars nýja Mærskturninn og fengum leiðsögn um bygginguna þar sem ungur maður sagði okkur frá þeim hugsunum sem liggja á bak við sjálfan arkitektúrinn og þeim lausnum sem arkitektinn hefur valið. Þessi ferð endaði svo á Warpigs-brugghúsinu og barnum þar sem bestu bjórar Danmerkur eru seldir (en bjórinn sem ég smakkaði náði ekki að toppa Humarbjór Sölva frá brugghúsinu hans ÖR).

IMG_1812
Humar, frá brugghúsinu Ör. Next level í bjórgerð.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.