Leiksvið leiðans

Ég las í blaði um daginn að nýkjörinn fulltrúi Sósíalistaflokksins í borgarstjórn segi nýjan meirihluta borgarstjórnar berjast gegn fátækum. Heillandi baráttumál; kjósið mig ég vil auka eymd fátækra. Já, þetta fólk í meirihlutanum eru vondar manneskjur, með ömurleg baráttumál – það er annað en góðmennin í Sósíalistaflokknum. Mér finnst satt að segja vinstri populismi næstum enn verri en hægri populisminn. Þetta er svo ógeðfelld hræsni.

En ég hef svo sem engan áhuga á stjórnmálamönnum. Það leiksvið hefur aldrei heillað mig.

Í gær las ég aftur hlaupabók Murakamis, What I talk about when I talk about running. Ég var svo hrifinn af henni þegar ég las hana á ferðalagi í Prag fyrir nokkrum árum. En við lesturinn í gær hugsaði ég oft með sjálfum mér hvað mér hafi fundist hún miklu betri á ferðalaginu í Prag. Bókin fölnar mikið við annan lestur.

Nú held ég af stað til Ítalíu í næstu viku. Bústörf í ólífulundi. Ég hafði hugsað mér að taka íslenskar bækur með mér. Mér dettur bara ekki hug nein íslensk bók sem mig langar að lesa. Ég hef orðið fyrir töluverðum vonbrigðum með þær íslensku bækur sem ég hef lesið upp á síðkastið. Las til dæmis bók Einars Kárasonar, Stormfugl, sem mér skilst að hafi fengið mikið lof. Ég er hálfhissa á því að jafn góður sögumaður og Einar er skuli ekki geta gætt þessa dramatísku frásögn um mikinn sjávarháska meira lífi. Frásögnina vantar alveg persónur sem kveikja samúð og heitar tilfinningar hjá lesandanum. Sögupersónurnar eru svo miklar dúkkur. Svo las ég bók Þorgríms Þráinssonar um íslenska fótboltalandsliðið. Það er skelfileg bók og ég hef lesið fleiri íslenskar bækur nýlega, sem ég nefni ekki hér, en ekkert hefur náð að heilla mig.

Ég væri þakklátur þeim sem benti mér á gott lesefni á íslensku.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.