Ókunnugir menn hlæja saman úti á götu

 

Á leið minni til vinnu í morgun mætti ég manni sem ávarpaði mig mjög kumpánlega þegar ég nálgaðist hann. Hann gekk með hundinn sinn í bandi eins og svo margir gera þessa dagana. Hann hafði sérkennilega tískurétt gleraugu sitjandi á nefinu.
„Hæ, Zlatan. Nærðu að spila tennis í sumar?“ spurði hann kankvíslega á meðan hundurinn hans þefaði af mér.
Ég þekkti manninn ekki og ég skildi ekki hvernig hann vissi hvað ég var kallaður og hvernig hann vissi að ég spilaði tennis. Ég man ekki eftir að hafa hitt þennan mann fyrr.
„Já, ég spila svona þrisvar eða fjórum sinnum í viku. En þú? Hvað með þig, spilarðu tennis?“ Þetta sagði ég alveg út í loftið. Eitthvað varð ég að segja.
„Nei, konan vill ekki að ég spili tennis.“
„Nú … hvers vegna ekki?“
Hann hló. Hann hló satt að segja ótrúlega innilega og smitandi þannig að ég fór líka að hlæja. Ég held að hann hafi hlegið enn meira af því að ég hló og þarna stóðum við tveir ókunnugir menn skellihlæjandi út á miðri götu. Ég vissi ekki af hverju hann var að hlæja en ég gat ekki annað en hlegið. Og svo kvaddi hann eins og þessi hlátur væri svar við spurningu minni.
„Vi ses, Zlatan.“

Ég þarf á takti og swingi að halda þegar ég vinn. Þess vegna spila ég eiginlega alltaf það sama, ég er fastur í Cave, Waits, Chet, Smog, Barry Adamson og gömlum plötum með Lisu Ekdahl. Ég reyni og reyni að fá fleiri tónlistarmenn inn og bið fólk um að senda mér góða músik. En það þarf að vera swing og kraftur. Nú spila ég til dæmis Caves, Red Right Hand í hljómleikaútgáfu. Ekkert væl.

Í gærkvöldi fór ég á fyrirlestur í Louisiana safninu. Ég vissi svo sem ekki almennilega fyrirfram hvað fyrirlesturinn gekk út á annað en ég hafði heyrt að fyrirlesarinn var einn helsti sérfræðingur í áhrifum nýrrar tækni á manneskjur og samfélagið. Mér finnst gaman að fara á svona fyrirlestra, það er alltaf uppörvandi. Og þessi fyrirlestur var engin undantekning. Gaman.

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.