Verðlaunin og viðureign mín við hraðamælingamanninn

Síðasti dagur í jóga í dag. Það er ákveðinn léttir … þannig …. en mér til stórrar gleði kom Serpil, góði jógakennarinn okkar, og færði mér verðlaunin fyrir bestu mætingu í jógatíma vetrarins. Ég segi að þessi verðlaun séu líka fyrir flottasta hundinn (jógaæfing). Verðlaunin var steinn (rosenkvarts) sem á að skapa ró og sælu. Ég hef svo sem ekki mikla trú á því að steinninn í sjálfu sér stuðli að ró. Þar stóla ég á sjálfan mig.  Ég held að ég sé bara nokkuð góður í því. En verðlaunin voru svo falleg og góð.

Í gær rakst ég á frétt  sem gladdi mig ósegjanlega, þar sem var fjallað um hraðakstur ökutækja. Einstaklega óáhugavert í sjálfu sér, ég las heldur ekki greinina. En myndin sem fylgdi fréttinni vakti athygli mína. Myndin sýndi tvo lögreglumenn, annan stríðsklæddan og vopnaðan hraðamyndavél. Og það er einmitt myndin af  lögreglumanninum sem skemmti mér svo innilega. Fyrir örugglega 20 árum stóð þessi sami lögreglumaður við hlið mótorhjólsins síns á Eyðisgranda og mældi hraða í nákvæmlega sama búningi og mundaði þessa sömu hraðamyndavél. Í þetta sinn var ég fórnarlambið. Gott að sjá að hann er enn á réttum stað í lífinu, 20 árum síðar.

927046
Árni Friðleifsson lögreglumaður er til hægri á myndinni.

Ég keyrði á mínum Bjartsmobil, sem var skelfileg drusla af japanskri gerð, eftir Eyðisgranda. Það var kvöld, umferðin var létt og ég var að flýta mér í innanhúsfótbolta … á síðustu stunda að vanda. Skyndilega sprettur þessi kappklæddi lögreglumaður út úr myrkrinu fyrir framan bílinn minn og gefur mér alþjóðlegt merki um að stöðva ökutækið. Ég gat ekki annað en ekið út í kant því ég þekkti stöðvunarmerkið og opnað bílstjórarúðuna svo lögreglumaðurinn, sem var alvarlegur á svip, gæti borið upp sitt brýna erindi. Ég kannaðist við manninn frá fyrri tíð. Ég hafði spilað handbolta með Fram sem ungur maður og lögreglumaðurinn var enginn annar en Árni Friðleifsson sem hafði verið mótherji minn og spilaði með Víkingi og landsliðinu (og er bróðir Sifjar Friðleifsdóttur).
„Gott kvöld, veistu hver leyfilegur hámarkshraði er hér?“ sagði hann með þjósti.
„Jaa-á,“ svaraði ég. Ég hafði samt ekki hugmynd um það. 50 km/kls? 60 km/kls? Ég þorði ekki að segja annað en ég væri alveg með það alveg á hreinu.
„Nú, svo þú veist það … hvers vegna keyrðir þú þá á 66 km/kls?“
„Gerði ég það?“
„Já! Og það er yfir löglegum hámarkshraða eins og þú getur kannski reiknað út.“
„Já, fyrirgefðu. En ég er að flýta mér í fótbolta. Þú sem gamall íþróttamaður hlýtur að skilja nauðsyn þess að koma á réttum tíma til æfinga.“ Ég reyndi að slá á létta strengi.
„Nei …“ svaraði hann með hneykslun í röddinni. „Eins og mér sé ekki skítsama um þinn táfýlufótbolta.“
„Ha? Þú hlýtur að skilja að ég vil ekki missa af einni mínútu af fótboltaæfingunni. Þetta er ein af mínum stærstu ánægjustundum.“
„Ég get sagt þér að þetta hér er ein af mínum stóru ánægjustundum, að sekta svona jólasveina eins og þig. Það veitir mér miklu meiri ánægju að sekta þig en þú færð út úr því að mæta í þinn bumbubolta!“

Svo reif hann upp sektarmiðana sína.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.