Stóra forleggjaranefið virkjað

Samkvæmislífið eða félagslífið tekur sinn toll hjá mér. Ég sofna seint og vakna snemma en er frekar þreyttur. Í gær var sumarveisla hjá Helle og Jesper sem stóð langt fram á nótt. Mjög góð veisla. Í morgun klukkan níu var ég svo bókaður í tennisbolta með Thomasi, duglega manninum, og það var langur leikur. Í tveggja tíma harðri baráttu var engin grið gefin. Ég er satt að segja enn þreyttur eftir þennan tennisleik þótt komið sé kvöld.

Nú er ég búinn að fá í hendurnar bók Bergsveins Birgissonar sem væntanleg er í haust og byrjaði að lesa hana í dag. Bókina fékk ég eftir undarlegum leiðum – ekki frá Íslandi heldur frá umboðsmanni Bergsveins. Nú hef ég nefnilega verið ráðinn sem ráðgjafi hjá dönsku forlagi sem vill nota mitt gamla forleggjaranef til að finna bækur. Ég er sannfærður að Bergsveinn sé einn af stærstu höfundum þjóðarinnar. Ég hlakka til að lesa bókina.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.