Konan á bekknum

Ég hef einu sinni komið til Helsinki en þangað langar mig ekki aftur. Ég hef aldrei átt leið um Utrecht en ég hef verið bæði í Amsterdam og Antwerpen. Ég kunni sérstaklega vel við mig í Amsterdam en í Antwerpen var gífurlega vindasamt á meðan heimsókn minni stóð. Ég minnist á þetta hér þar sem mér varð hugsað til þess á gönguferð minni í gær að ég hafi bara einu sinni komið til Napólí þótt ég dvelji hvert sumar ekki fjarri borginni. Einu sinni átti ég erindi í IKEA í Napólí, það var fyrir mörgum árum þegar okkur vantaði húsgögn, bæði borð og stóla, fyrir húsið okkar í ólífulundinum við Vico. Ég hafði ætlað mér að borða sænskar kjötbollur í IKEA versluninni í Napólí eftir ökutúrinn frá Vico. En ekkert varð úr því. Ég hafði ekki lyst á IKEA mat þegar á hólminn var komið.

Í gærdag var ég sem sagt  á göngu í veðurblíðunni. Ég gekk eftir fáförnum sandvegi sem liggur milli kornakra og beitihaga hér rétt fyrir utan Espergærde. Ég vissi að þar voru kýr á beit. Ég kann svo vel við kýr, því leita ég þær uppi, kýrnar, og staldra við þegar ég nálgast kúaflokkinn. Í gær kallaði ég á þær, bæði á dönsku og íslensku. Þær komu ekki, stóðu bara og góndu á mig. Á meðan ég reyndi að lokka kýrnar til mín hugsaði ég um sveitina á Ítalíu og allt í einu komi þessi minning til mín um ferð mína til IKEA í Napólí. Ég ákvað þarna við kúagirðinguna að stefna á helgarferð til Napólí seinnihluta septembermánaðar. Það sagði ég kúnnum, að ég ætlaði til Napólí í haust.

Á gönguferð minni, þessari sömu og lá um grashagana,  gekk ég líka niður á strönd og þar sá ég konu sitja á bekk og lesa. Ég er alltaf forvitinn að sjá hvað bækur fólk velur til að lesa sér til skemmtunar. Ég nálgaðist því konuna varfærnislega. Þessi kona, sem sat á löngum grænmáluðum bekk, var með sólgleraugu og barðastóran hatt. Hún las bókina I know what you are really thinking með undirtitlinum Reading Body Language like Trial Lawyer. Ég íhugaði að setjast við hlið konunnar og finna svo tilefni til að spyrja hana hvers vegna hún hefði valið slíka bók til lestrar á bekknum. Eftir augnabliks hik guggnaði ég á því að setjast þarna við hlið konunnar. Hún hefði kannski  mistúlkað tungumál líkama míns og haldið að ég hefði eitthvað annað í huga en að spyrja hana um efni bókarinnar. Ég tók líka eftir að hún hafði ekki lesið sérstaklega langt í bókinni og því væru líkurnar á mistúlkun líkamstjáningar enn meiri en hefði hún verið að klára bókina.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.