Laxasamloka með mæjónes.

Það er að koma sumarfrí og því margt sem þarf að klára áður en keyrt er suður á bóginn. Í gærkvöldi nenntum við hvorki að kaupa í matinn né elda. Við Númi urðum þó svangir þegar kvöldaði og ég fann tvær pylsur inni í ísskáp. Ég grillaði pylsurnar, við settum tómatsósu, sinnep og steiktan lauk á brauð og svo fengum við tveir okkur sæti út á garðbekk og borðuðum þegjandi og horfðum á býflugurnar hoppa á milli lavander-stránna í blómabeðinu fyrir framan okkur. Þetta var aldeilis frábær máltíð satt að segja.

Ég hef borðað á fínum veitingastöðum, í Danmörku, Ítalíu, Frakklandi … Noma, Henne Kirkeby Kro, Osteria Fransicana … og fengið ógleymanlega fínan mat en þessi pylsa var bara frábær og passaði fullkomlega inn í daginn. En sú máltíð sem ég gleymi aldrei og er sennilega besta máltíð í lífi mínu borðaði ég inni í gömlum Saab-bíl uppi í Bláfjöllum fyrir mörgum árum.

Hafliði, stóri bróðir minn, hefur alltaf verið mér góður. Þegar ég var lítill strákur, kannski tíu eða ellefu ára var margt sem aldrei hafði komið inn fyrir mínar varir. Mæjónes, reyktur lax, ítalskt salat, skinka, svínakjöt, bakaðar baunir voru matvörur sem ekki voru á boðstólum á heimili mínu á þessum árum.  En vetrardag einn bauð Hafliði mér og nokkrum vinum mínum upp í Bláfjöll. Hann bauðst til að keyrði okkur í gamla SAAB-bíl fjölskyldunnar. Við renndum okkur á sleðum hálfan dag og vorum bæði kaldir og blautir þegar við komum aftur inn í bílinn. Þá tók hann allt í einu fram þessar laxasamlokur sem hann hafði keypt einhvers staðar. Það var hálf samloka á mann. Og ég man enn eftir bragðinu og hvað samlokurnar voru stórkostlegar. Ég gleymi aldrei þessari máltíð. Ég hugsa alltaf um þessa laxasamloku inni í Saab-blínum sem bestu máltíð lífs míns.

En nú má ég ekki vera að þessum dagbókarskrifum, nú byrjar leikur Íslands og Króatíu í heimsmeistarakeppninni í fótbolta.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.