Mér hefur ekki alveg tekist að lifa mig inn í heimsmeistaramótið í fótbolta að þessu sinni. Ég hef séð nokkra leiki en einhvern veginn er hálfrangt í mínum huga að sitja innandyra á glæsilegum sumardegi til að horfa á fótbolta. Ég næ því ekki alveg að lifa mig inn í leikina þegar sólin skín og fuglarnir syngja. Ég sest auðvitað niður af og til og fylgist með en ekkert nær þó að æsa mig jafnmikið í fótboltaleikjunum og mannfýlan hann Maradonna sem situr upp í einhvers konar heiðursstúku og er með fíflalæti. Mér finnst hann þvílíkur fábjáni og hörmulegt hvað slíkur mannkjáni fær mikla athygli fyrir trúðslætin í sér. Yfir þessu tekst mér að æsa mig – þótt ég láti pirring minn ekki í ljós – en ekki sérstaklega yfir fótboltanum.
Við keyrum í morgunsárið á morgun. Fjölskyldufákurinn er fullur af bensíni og ætti auðveldlega, með öll sín hestöfl, að geta flutt okkur suður á bóginn. Við verðum að vera komin af stað klukkan 5:30, því ferjan leggur frá landi klukkan 08:00. Fyrsti áfangastaður er München (11 tíma og 17 mín keyrsla skv. Google). Ég þarf að hugga hina sorgmæddu þjóð, lyfta henni upp. Við sinnum skyldum okkar í München í nokkra daga, þar hittum við forleggjaravini og kíkjum á menningarlíf Münchenborgar auk sálsorgarverkefna.
Númi kemur ekki með okkur. Hann er orðinn of fullorðinn til að vilja ferðast of lengi með foreldrum sínum. Hann ætlar að vera með vinum sínum fram í næstu viku og fljúga svo frá Kaupmannahöfn til Bologna þar sem við hittumst aftur. Það er gaman að fylgjast með hvað Númi hefur fullorðnast mikið á sínu fyrsta ári í menntaskóla.