München: Á mannauðum veitingastað

1000 kílómetrar að baki og við erum komin til München. Náðum til bæjarins um átta leytið í kvöld og flýttum okkur að losna við bíl og ferðatöskur til að fá okkur eitthvað að borða. Fundum ítalskan stað hérna á horninu, rétt við hótelið. Við nenntum ekki að vanda val á veitingastað svo við settumst bara inn á altóman stað með dúkuðum borðum.

Þar var ítalskur þjónn sem tók á móti okkur og við fengum ágætan mat. Það var bara gott að seðja hungrið og fínt að fá bjór eftir allan þennan akstur.

Nú erum við komin upp á hótel og ég er lagstur upp í rúm. Ætla bara að lesa áður en ég sofna. Það er enn töluverð ökuþreyta í hausnum á mér, enda búinn að keyra hratt í rigningu og þoku í gegnum Þýskaland þar sem vegagerðarmenn herja á hraðbrautirnar með öllum sínum vegavinnuskiltum og vegaþrengingum. Já, ég ætla aðeins að lesa áður en ég sofna en svo vænti ég þess að München taki á móti mér með glampandi sól þegar ég vakna til morgunmatarins.

Seinni part morgundagsins verðum við í umsjá gamals félaga úr forlagsbransanum sem ætlar að bjóða okkur í kvöldmat og góða, þýska gamansemi. Yo!

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.