München: Persóna í dagbók

Fyrsti dagur í München og ég er búinn að kaupa mér eina bók – Dagbækur David Sedaris vol. 1 –  það er líka það eina sem ég hef keypt og ég á ekki eftir að kaupa annað, nema ef væri önnur bók. Á meðan Sus og Davíð kíktu á tískuvarning og annað sem ég hef ekki svo mikinn áhuga á settist ég á bekk á torgi og las í dagbókum Sedaris. Hann er fyndinn. Þetta er fyrsta bindi dagbóka hans og nær frá árinu 1997 fram til ársins 2002. Ég hitti Sedaris árið 2016 svo ekki er alólíklegt að ég verði með í þriðja bindi verksins. Sennileg lýsir sú færsla hans dönskum útgefanda með stórt nef sem fylgdi honum tvo daga í Kaupmannahöfn og náði á þeim tíma að ganga einu sinni, í miðju samtali, á ljósastaur og í annað skipti að ganga niður konu sem ekki var nógu farlama til að keyra í hjólastól og því studdi hún sig við göngustatíf – þetta var líka í miðju samtali.

Í gær fékk bréf frá ungum forleggjara sem hefur útgáfu bóka sem tómstundagaman. „Ég er búinn að fá nóg af fegurð,“ skrifar hann til mín og spyr hvort ég vilji vinna fyrir hann og sinna því sem honum finnst leiðinlegt svo hann geti einbeitt sér að því sem honum finnst skemmtilegt. Tímalaunin voru fram úr hófi góð, svo góð að ég gæti aldrei fengið mig til að taka við slíkri upphæð fyrir klukkustundar vinnu. Ég svaraði honum að ég væri bundinn. Og mætti ekki vinna fyrir útgefanda næstu tvö árin. Sem er satt.

Annars dreymdi mig Eirík Guðmundsson í nótt, hann var í blárri peysu.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.