Á hverjum morgni hérna í München borða ég morgunmat á borði við hlið rússnesks manns sem er alltaf vopnaður tveimur símum. Í annan símann talar hann látlaust og notar þann tíma sem viðmælandinn hefur eitthvað að segja til að stinga matarbitum upp í munninn á sér. Á meðan símtölunum stendur heyrast stanslaus pling í hinum símanum hans, eins og þangað sé stöðugur straumur skilaboða. Hann virðist vera sallarólegur yfir þessu öllu. Ég velti fyrir mér við hvað maðurinn starfar. Hann er í það minnsta afar upptekinn.
Ég las viðtal við Jonathan Frenzen í dag. Ég er aðdáandi hans og les bækurnar hans. Og nú erum við svo sammála um margt – það las ég í viðtalinu – að við getum alveg kallast skoðanabræður. Okkur er báðum óskaplega illa við hina nýju þróun, með facebook og twitter sem alsráðandi í skoðanamyndun og skoðanakúgun í dag og við erum báðir áhyggjufullir yfir því sem okkur finnst vera hnignun; minnkandi menningaráhugi, minni áhugi á bókmenntum og minnkandi einbeitingarhæfni fólks. Niðurstaðan verður í okkar huga yfirborðslegt samfélag. Viðtalið er langt eins og mörg viðtöl í NYT og að mörgu leyti skemmtilegt.
Ég keypti bók í dag. Þetta er önnur bókin sem ég kaupi í München. Anything is Possible eftir rithöfundinn Elizabeth Strout sem ég er líka hrifinn af. Hún er ekki þýdd á íslensku, ég held að Frenzen sé heldur ekki þýddur á íslensku. Það er víst of erfitt að selja slíka höfunda á Íslandi.
Það var furðuleg uppákoman í gærkvöldi þegar við vorum á leið heim úr heimsókn okkar til forleggjaravinar okkar. Við höfðum gengið í rólegheitunum í kvöldstillunni eftir kyrrlátum götum München. Þegar við vorum komin í námunda við hótelið okkar var kallað ákaflega til okkar. Ég vissi ekki hver átti svo brýnt erindi við okkur í München og horfði ringlaður í allar áttir.
Ég kom fljótlega auga á lítinn og mjósleginn mann í dyrum veitingastaðarins sem við höfðum borðað á kvöldið áður. Þetta var sjálfur þjónninn, sá sem hafði þjónað okkur til borðs, en svo vildi til að við vorum einu gestir veitingastaðarins það kvöld.
„Hó!“ hrópaði hann og veifaði öllum öngum. Við horfðum furðulostin á manninn og veifuðum glaðlega til baka.
„Hó, komið og setjist … setjist þið. Ég vil endilega bjóða ykkur eitt glas af prosecco með mér!“
Við hlógum vandræðalega og höfðum ekki svo mikinn áhuga að setjast að prosecco-drykkju með þessum ókunnuga þjóni. „Nei, takk,“ sagði ég. En hann var svo ákafur og kallaði okkur vini sína og var augljóslega svo þakklátur fyrir heimsókn okkar á veitingastað hans kvöldið áður. Hann eiginlega þvingaði okkur til að setjast og við erum svo kurteist fólk að við gátum ekki látið það eftir okkur að valda þessum þjóni vonbrigðum.
Hann greip proseccoflösku, opnaði hana með ótrúlegri fimi, teygði sig í þrjú glös og hellti. Hann setti glösin fyrir framan okkur Sus og fékk sér sæti við hlið okkar. „Skál!“ sagði hann innilega og lyfti glasi sínu. Við skáluðum og hófum samtal við þennan mann sem reyndist vera ítalskur sem hafði búið í München í 30 ár. Þýskan hans var ekki upp á marga fiska svo nú upphófst samtal á ítölsku, þýsku og ensku. Ég flýtti mér að klára úr glasinu til að komast heim og það gerði Sus líka en áður en við náum að kveðja hellti hann aftur í glösin okkar og mátti ekki heyra á það minnst að við værum á heimleið. Enn hófst ný samtalslota og við svolgruðum í okkur proseccoið og gerðum okkur líkleg til að kveðja á ný. Hann var ekki á því að sleppa okkur, nú tæmdi hann flöskuna í glösin hjá okkur og hljóp inn á barinn til að ná í Coke fyrir Davíð.
Ég er ekki mikið fyrir prosecco og alls ekki seint um kvöld. En þarna á 15 mínútum skolaði ég niður rúmlega hálfri flösku. Það var ekki fyrr en flaskan var búin að hann tók í mál að við kveddum hann. Davíð var viss um að við yrðum blindfull af þessari drykkju og hefur ítrekað spurt í dag hvort við munum eftir kvöldinu með ítalska vini okkar og prosecco-drykkjunni.