München: Einbeitt samskipti

Ég borða kvöldmat á veitingastöðum hér í þýsku borginni Münhen –  ekki getum við eldað hér eldhúslaus – nema þegar við erum boðin að borða í heimahúsi, eins og nú í kvöld (við leggjum af stað gangandi eftir 15 mínútur). Ég tek eftir því þegar fleiri en við erum á veitingahúsinu að margir gestirnir eru meira uppteknir af símanum sínum en borðnauti sínum eða bornautunum.  Ég verð vitni að því æ ofan í æ að fjölskylda kemur saman á veitingastað, kannski fjögur saman, og þau eru varla sest niður þegar símarnir eru teknir fram og svo situr hver fjölskyldumeðlimur límdur niður í símann sinn. Mér finnst þetta nokkuð ósjarmerandi.

Nú er það svo að síminn hefur gert marga hluti óþarfa. Engin símaskrá, engin ritvél, engin myndavél … Í einu tæki getur maður talað í síma, séð hvað klukkan er, lesið bækur, horft á bíómyndir, sent skilaboð, tekið myndir, mælt gönguskref, fengið vegaleiðbeiningar, skipulagt dagana … allt er þetta, og meira til, í einu tæki. Síminn er orðinn svo mikilvægur hluti af daglegu lífi að fólk finnur til vanlíðunar þegar tækið er utan seilingar. En mér finnst leitt þegar síminn kemur í veg fyrir einbeitt og heiðarleg samskipti.

Nú er ég dottin ofan í Elizabeth Strout bókina. Hún er góð. Ætli ég dundi mér ekki bara við að þýða bókina mér til skemmtunar.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.