Modena: Að toga í rangan spotta

Nú þegar ég ligg upp í rúmi í leiguíbúðinni í Modena (airBnB) og reyni ég af fremsta megni að rifja upp atburði dagsins, daginn sem við keyrðum frá München til Modena, verð ég skyndilega altómur. Það er oft svo með hina svokölluðu ökudaga; það er þegar ég eyði megninu af deginum undir stýri. Maður er þreyttur á frekar leiðinlegan hátt. Ég ákvað því að gera lista yfir atburði dagsins, það er oft léttara.

 1. Í morgunmatnum á hótelinu sátu fáir gestir að snæðingi í veitingasal hótelsins. Þó voru tveir miðaldra karlmenn á borðunum við hliðina á mér. Hvor á sína hönd. Annar sat með konu sinni, hinn sat einn.  En báðir höfðu það sem kallast doughnut-skegg í kringum munninn á sér. Slíkum mönnum hef ég aldrei treyst. Ég tók líka eftir að annar af þessum tveimur mönnum var með hring á vinstri hendi sem var alskreyttur demöntum. Ég hef aldrei fyrr séð karlmann með demantshring.
 2. Á borðinu fyrir aftan mig var var stór fjölskylda  (sex manns) sem talaði rússnesku. Móðirin í fjölskyldunni var það sem kallast erfið kona. Hún hafði allt á hornum sér. Bað um að eggið sem hún pantaði yrði soðið í 4 mínútur. Svo kom eggið og þá var það ekki nógu soðið (það hefði ég getað sagt henni) svo hún bað um annað egg sem yrði soðið í 5 mínútur. Hún var gífurlega óánægð þessi kona.
 3. Þegar ég ætlaði að keyra upp úr bílakjallaranum að loknum morgunverði vissi ég ekki hvernig ég skyldi opna útkeyrsludyrnar að bílakjallaranum. Ég hélt að þær væru sjálfvirkar en þegar ég keyrði upp að þeim opnuðust þær ekki svo ég bakkaði til að kanna aðstæður. Ég tók eftir keðju sem hékk niður úr loftinu. Ég hélt að þessi keðja væri til að opna bílskúrsdyrnar svo ég togaði. Ekkert gerðist. Dyrnar opnuðust ekki og ekki virtist keðjan vera tengd við neitt. Ég bakkaði lengra og staldraði við til að svipaðist um í bílakjallaranum í leit að einhverjum hnapp til að opna dyrnar. Skyndilega komu tveir menn hlaupandi inn í kjallarann með miklum látum. Það var neyð í augum þeirra og þeir hlupu hratt í áttina til mín. „Kallaðir þú á hjálp?“ hrópaði annar maðurinn og báðir komu þeir á hendingskasti til mín þar sem ég stóð fyrir utan bílinn minn (ég hafði stigið út til reyna að finna hnappinn til að opna dyrnar).
  „Nei,“ sagði ég og var hálfskelkaður, þeir voru augljóslega í neyðarútkalli, ekki komnir til að opna útkeyrsludyr.
  „Eru einhverjir aðrir hér í kjallaranum?“ spurði maðurinn óðamála.
  „Ég veit það ekki, ég hef ekki séð neinn.“
  Þeir skimuðu í allar áttir og hlupu svo, hvor sína leið inn í kjallarann. Ég fylgdist með hlaupum mannanna og reyndi að átta mig á aðstæðum. Hverju leituðu þeir að? Þeir hlupu fram og til baka og komu svo aftur hlaupandi til mín. „Togaðir þú nokkuð í neyðarsnúruna?“
  „Neyðarsnúruna? … “ Gat verið að þessi keðja sem ég togaði í væri neyðarsnúra? „Meinarðu þessa keðju?“ sagði ég benti á keðjuna sem ég hafði kippt í.
  „Já!“
  „Já … ég togaði … ég vissi ekki …“ Ég náði ekki að segja meira því það var eins og ég hefði hleypt lofti úr blöðru. Mennirnir hálflyppuðust niður af létti. „Þú mátt alls ekki toga í þessa snúru, maður … þetta er neyðarsnúra.“
 4. Akreinarnar á Ítalíu eru mun mjórri en í Þýskalandi og því reynir aksturinn, eftir að maður kemur í gegnum Brennerskarðið, meira á ökumanninn.
 5. Ég kann vel við Modena. Jafnvel betur en München sem reyndist bara ágæt borg. Á göngu mína um München datt mér oft í hug að í þessari borg hefði Hallgrímur Helgason, rithöfundur, verið svo gífurlega sjóveikur að hann kastaði upp blýkenndu blekgubbi. Frá því segir hann í einni af bókum sínum. Mig minnir að það hafi ekki skánað mikið eftir að hann fluttist til Reykjavíkur.
 6. Ég sá Belgíu vinna Japan í fótbolta. Ég sárvorkenndi Japönum eftir leikinn. Það er eitthvað heilbrigt við afstöðu Japana til sumra hluta. Þeir eru svo háttvísir, (gráta ekki eins og dekruð smábörn eftir að hafa tapað leik eins og margir af frægari knattspyrnumönnum samtímans hafa tekið upp, upp á síðkastið). Og svo bera þeir svo mikla virðingu fyrir umhverfi sínu, gestgjöfum sínum, að japanskir áhorfendur taka til eftir sig á áhorfendapöllum.
 7. Mér varð hugsað til þess í dag hvað mér þætti nafnið Múli skemmtilegt og flott.
 8. Ég sá tvífara Gerðar Kristnýjar (fyrrum ritstjóra) á götum Modena í dag. Hún leiddi mann sem líktist Kristjáni B. ekki hið minnsta.
 9. Mér verður alltaf hugsað til forsetaefnisins Andra Snæs þegar ég á leið um Modena. Andra hitti ég einmitt í borginni fyrir mörgum árum. Hann var þá í söluham fyrir Bláa hnöttinn og hafði aðalbækistöð í Modena, en herjaði á bókaútgefendur á barnabókamessunni í borginni Bologna sem er um það 50 kílómetrum sunnar.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.