Ég er enn í Modenaborg, en á morgun keyrum við til Bologna (náum í Núma á flugvellinum) og svo höldum við áfram lengra í suður. Allan daginn í dag höfum við þvælst um Modenaborg, gangandi frá einum bæjarhluta til annars í ýmsum erindagjörðum. Á slíkri göngu sækja á mann ýmsar hugsanir. Þótt ég skrifi daglega í dagbók mína og segi frá því sem á daga mína drífi, og segi einlæglega frá því sem ég tek mér fyrir hendur og hugsa, þá er þessi Kaktusdagbók engin játningadagbók. Ég gaspra ekki um það sem ég vil halda fyrir sjálfan mig.
Ég minnist á þetta hér því á göngu minni í dag sótti á mig frásögn félaga míns. Ég hafði hitt hann skömmu áður en við héldum af stað suður á bóginn. Hann fór allt í einu að segja mér frá því að fyrir meira en tuttugu árum hefði hann orðið fyrir sérstakri reynslu þegar íbúðin hans brann. Hann hefur alltaf kennt sjálfum sér um brunann – það er langt mál – og ég hef aldrei heyrt annað en að bruninn hafi verið aðgæsluleysi hans að kenna.. En hann sagði mér að þegar hann horfði á eldinn éta íbúðina sína og allt það sem þar var innanstokks var eins og einhver stryki honum um vangann. „Þetta var mjög greinilegt, það fór ekki á milli mála í huga mér að einhver strauk mér um vangann, ég fann fyrir góðsemdinni … Ég hafði aldrei sagt neinum frá þessu atviki og ég hef alltaf hugsað að þessi snerting hafi verið guðleg“ – hann vinur minn hefur aldrei verið trúmaður – og hann fann um leið og höndin strauk um vanga hans að þessi bruni væri áfangi, kaflaskil, og nú hæfist nýtt tímabil þar sem allt yrði til hins betra. Og þannig þróaðist líf hans. Allt gekk honum í hag eftir þennan bruna.
„Ég hét því með sjálfum mér að segja aldrei neinum frá þessari reynslu. Þetta atvik yrði milli mín og Guðs,“ sagði hann. „Og þannig hefur það verið í rúm tuttugu ár. Ég hef aldrei sagt neinum frá þessu, hvorki konu minni né öðrum.“ En fyrir nokkrum vikum hafði hann heimsótt kunningja sinn. Það kom í ljós að kunninginn átti um sárt að binda og var ekki mönnum sinnandi. Konan hans hafði farið frá honum og hafði fundið annan mann. Félagi minn reyndi hvað hann gat til að hugga kunningja sinn og án þess að hugsa sig um fór hann að segja frá þessari reynslu sinni í kringum brunann. „En um leið og ég hafði lokið frásögninni vissi ég að þetta var rangt af mér að segja frá þessu. Ég hafði svikið sjálfan mig. Nú eru nokkrar vikur síðan ég hitti kunningja minn og nokkrar vikur síðan ég sagði honum frá þessari innilegu reynslu og ég finn að ég er ekki lengur heill maður. Ég er ekki samur maður. Ég hef svikið sjálfan mig. Ég gerði rangt.“ Ég skil vel hvað hann á við.
ps. Ég varð var við það í morgun að einhverri Kaktus-dagbókarfærslu hefði verið deilt á facebook. Furðulegt sem það nú er fékk ég hnút í magann. Hvað hef ég nú sagt? hugsaði ég og orkaði ekki að verða enn á ný fyrir aðkasti frá rétttrúnaðarfólki á facebook. Þótt ég lesi aldrei neitt á facebook eru félagar mínir duglegir við að stríða mér þegar facebook-stormurinn skellur á mér. En mér er ekki skemmt.