Vico del Gargano. Pabbi Einars Áskels

Undanfarna daga hef ég reynt að rifja upp hvað pabbi Einars Áskels heitir. Ég man að ég fletti því upp fyrir nokkrum mánuðum og ég man líka að ég varð fyrir vonbrigðum yfir hvað nafnið var slappt. Ég hef ekki nennt að fletta því aftur upp en þess í stað hef ég brotið heilann, en án árangurs.

Ég minnist á þetta hér þar sem ég er að lesa sænsk bók eftir Jonas Hassen Khamiri og hef í tilefni af því velt fyrir mér sænskum bókmenntum (sem bækurnar um Einar Áskel flokkast undir). Ég er búinn að lesa um það bil 150 blaðsíður og mér leiðist bókin. Ég kvarta ekki undan þýðingunni, hún er fyrirtak hjá Þórdísi Gísladóttur. Mér finnst bókin bara leiðinleg. Jonas hefur ákveðið að byggja bókina upp í stuttum köflum og skiptir títt milli sögumanna, ekki finnst mér það vera góð leið til að segja þessa sögu. Gagnrýnendur hafa verið mjög hrifnir a bókinni og ég man ekki betur en að hún hafi fengið æðstu bókmenntaverðlaun Svíþjóðar.  Segir það eitthvað um sænskar bókmenntir eða segir það eitthvað um mig? Ég er  að minnsta kosti ekki sérlega hrifinn og hef ákveðið að eyða ekki meiri tíma í bókina þótt ég hafi til ráðstöfunar allan heimsins tíma.

Ég er kannski ekki mikið fyrir verðlaunabókmenntir? Bókin sem hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin í fyrra var ekki heldur minn tebolli.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.