Vico del Gargano: Dýraflokkurinn

Ég hef fylgst með tveimur kúm sem eru á vappi hér í dalnum, milli ólífutrjánna í fylgd  hvíts hunds. Hundurinn hefur tekið að sér að vernda kýrnar og sýnir tennur og urrar illilega ef maður nálgast dýrin. Maður hættir sér ekki of nærri þessu grimmdarkvikindi. Ég ætla að reyna að ná mynd af þessum sérkennilega dýraflokki einn daginn.

Í morgun spilaði ég tennis við Jesper. Hann er ekki góður í tennis og ég vann hann 6-0  og 6-0. Á morgun spila ég við Núma, það verður harðari barátta.

Í gær hitti amerísk hjón sem eiga hús hér í næsta dal (fyndið að heyra Ameríkana segja „bon jorno“). Ég hef rekist á þessi hjón í Vico undanfarin ár, það er að segja að ég hef heilsað þessu fólki og spjallað stuttlega við þau. Þetta er ekki fólk sem mig langar að kynnast og ég er örugglega ekki maður sem þeim langar að kynnast. Því heilsumst við og skiptumst að kurteisisorðum og kveðjumst. Í gær sögu þau mér að þau áætluðu að flytja hingað til Vico eftir tvö ár og setjast hér að! Það finnst mér satt að segja furðuleg fyrirætlan. Þótt hér sé algerlega dásamlegt að vera nokkrar vikur eða mánuði í senn er þetta ekki staður sem maður sér sjálfan sig dvelja það sem eftir er ævi. Ég gæti vel hugsað mér að vera bóndi í fullu starfi en að vera svo langt frá fjölskyldu og vinum er óhugsandi. Hér í þessu litla, ítalska útkjálkasamfélagi finnur maður heldur ekki sína líka, svo ég mundi aldrei eignast ítalska félaga.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.