Vico del Gargano: Bátsferðin, con amore

Con amore var lykilorð gærdagsins og fljótlega eftir að ég sendi dagbókarfærsluna út í geiminn fékk ég tvö bréf frá ólíkum einstaklingum sem þótti hugmyndin um con amore bókaútgáfu svo góð að þeir vildu ólmir vera með. Con amore er lykilorðið að hjörtum hinna góðviljuðu.

Annars fékk ég aðra sendingu í morgun þar sem ég var minntur á hin ágætu orð: „Verið góðviljuð hver við annað, miskunnsöm, fús til að fyrirgefa hvert öðru …“ Ég verð alltaf hrærður þegar ég fæ slíkar áminningar.

Í dag var bátsferð á dagskrá. Við leigðum bát í Pescisi, eins konar snekkju, með Jesper, Line og fjöskyldu og sigldum meðfram ströndum Gargano og hoppuðum af bátnum í sjóinn til að synda. Eins og alltaf er sólskin hér í mínu svæði og í dag fengum við ríkulega með sól í andlitið. Ég er hálfdasaður eftir daginn. Kapteinninn er elskulegur maður og leggur sig fram um að þeir sem sigla með honum hafi það gott. Hann er óþreytandi að bera fram eitthvað góðgæti; ostrur, kræklinga, sardínuflök, bruscetta, osta, pylsur, hvítvín, rósavín, bjór og gosdrykki, melónur og ávexti.

Að lokinni átta tíma á bát undir beru lofti og steikjandi sól er ég sem sagt hálfdasaður og ég þarf að flýta mér í bað til að vera klár til að sjá leik Króatíu og Englands. Áfram Króatía!

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.