Vico del Gargano. Tímagnótt

Hér í sveitasælunni þar sem tíminn hreyfist varla úr stað hef ég ekki alltaf nettengingu, það er að segja síminn minn kemst ekki á 3G eða 4G netið. Satt að segja er sjaldnast nettenging og mér er alveg sama. Núma og Davíð finnst það heldur verra. Allt fær svolítinn annan svip í netleysinu og hugurinn er einbeittari yfir hinu smáa.

Ég minnist á þetta hér þar sem ég furða mig svo oft á því af hverju fólk hefur ekki meiri tíma. Af hverju hefur fólk svona ferlega annríkt. Í iðnbyltingunni sem var fyrir mörgum árum taldi fólk að ekki yrði langt í það að vinnuvikan styttist þar sem vélar hefðu tekið yfir svo mörg erfið og tímafrek störf. Frá iðnbyltingu til okkar daga hafa verið fundin upp ótal tæki og tól – meira að segja tölvur – sem hafa það að meginmarkmiði að létta okkur lífið, flýta fyrir verkum og gera þau léttari. En þrátt fyrir allar þessar framfarir held ég að fólk telji sig hafa minni og minni tíma. Það finnst mér alltaf svo undarlegt.

Ég sit á svölunum hér í LaChiusa og hlusta á söng engisprettnanna. Allt í kringum mig eru ólífutré og sólin er að skríða bak við skógivaxnar hæðirnar. Í lavanderrunna við húsið felur sig eiturslanga sem fældist þangað í morgun þegar ég kom henni að óvörum þar sem hún var að sóla sig á bílaplaninu fyrir framan húsið. Hér bærist ekki vindur, ég hef opnað bjór, Nastro Azzurro (blái borðinn) sem ég sötra á meðan ég skrifa dagbók dagsins. Ég hef nægan tíma, iðnbyltingin hefur greitt mér leið. Bráðum fer ég út og vökva appelsínutrén. Hér er svo þurrt og appelsínutré þurfa vatn, meira vatna en ólífutrén.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.