Vico del Gargano. Úrdráttur og ýkjur

Enn hlusta ég á söng engisprettunnar hér á svölunum á meðan ég sit og skrifa dagbókina. Önnur hljóð eru ekki hér í dalnum. Það er að koma kvöld og sólin nær rétt að kasta birtu sinni yfir trjátoppana áður en hún heldur ferð sinni áfram í vestur og niður. Áðan keyrði bíll niður veginn framhjá húsinu. Það eru tíðindi hér í sveitinni, sem þó enginn kippir sig upp við. Bílarnir keyra hjá og svo er ekki meira um það að segja. Að vísu villtist bíll hér upp innkeyrsluna í dag, það vakti athygli. Ég var að vökva appelsínutrén sem liggja hátt upp í hlíð hér á jörðinni svo ég sá niður á bílinn sem læddist inn innkeyrsluna. Ford Escort, hugsaði ég með mér, svartur, og í bílnum sátu tveir menn með sólgleraugu. Þeir sáu mig ekki en ég sá þá. Kannski hafa þeir haldið að enginn væri heima, en þeir snarstoppuðu þegar þeir komu auga á bílinn okkar sem stendur hnarreistur eins og sterkur vakthundur á bílaplaninu. Sólgleraugnakarlarnir settu snarlega í bakkgír og bökkuðu með hraði út í gegnum hliðið.

Í gær las ég bók og datt um setningu sem hljóðaði eitthvað á þessa leið að úrdráttur í frásögnum eru göfugri en ýkjur. Frásögn verður betri, skemmtilegri og áhugaverðari ef menn nota úrdrátt sem stílbragð fremur en ýkjur. Þetta fannst mér áhugavert og ég veit satt að segja ekki hvort þetta er rétt.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.