Hér í Vico hitti ég ekki marga sem ég tala við. Þó skiptist ég á kveðjum við þá Ítali sem ég kannast við í bænum. „Góðan daginn,“ segi ég og þeir svara í sömu mynt, „góðan daginn, Orso“. Svo nær samtalið oftast ekki lengra. Í gær hitti ég nokkra útlendinga sem eru á ferðalagi, ég veit ekki hvernig þeir höfnuðu akkúrat hér á þennan afskekkta stað, hvaða erindi þeir áttu hingað og hvað þeir verða lengi. En ég lenti á spjalli við þá í gær. Einn þeirra hafði verið fótboltaþjálfari víða, meðal annars hér á Ítalíu og Englandi og það vakti að sjálfsögðu áhuga minn. Fyrir nokkrum vikum var hann rekinn frá félaginu sem hann þjálfaði í Englandi, sagði hann og brosti. Ég vildi ekki vera of ákafur í áhuga mínum svo ég bara hlustaði á frásagnir hans sem voru bæði áhugaverðar og spennandi. Hann var afar kurteis og brosmildur, talaði furðulega ensku, ekki sérlega góða, en honum tókst þó að gefa frásögnum sínum sérkennilegan blæ, jafnvel ævintýralegan með einföldu orðavali, löngum þögnum og stuttum skrýtnum setningum.
Það vakti athygli mína að hann sagði, eins og það væri alvanalegt, að markmið hans í lífinu væri að safna minningum. Mér fannst þetta sérkennilegur lífsmetnaður en þegar ég hugsaði mig nánar um fannst mér þetta ekki alvitlaust. Hann hafði augljóslega fundið lífi sínu farveg og hann var ekki nískur á að deila þessum minningum sínum með okkur sem sátu til borðs með honum í gær eftir úrslitaleikinn milli Frakklands og Króatíu í fótbolta.