Vico del Gargano. Að hafa bestu og réttustu skoðunina

Ég settist á kaffistéttina upp í Vico til að komast á internetið í morgun og las meðal annars að Pia Kjærsgaard hefði verið í heimsókn á Íslandi síðustu daga  sem formaður danska þingsins. Tilefni heimsóknarinnar var víst að 100 áru eru liðin frá fullveldi Íslands. Ég las líka að koma hennar til Íslands til að flytja hátíðarræðu hafi ekki verið vinsæl hjá öllum. Pia Kjærsgaard stendur fyrir umdeildar skoðanir, meðal annars er hún ekki hrifin af vaxandi straumi innflytjenda til Danmerkur.

Maður getur verið sammála Piu Kjærsgaard eða ósammála. Hún hefur sínar skoðanir og hún hefur sínar röksemdir fyrir skoðunum sínum. Mér hefur alltaf þótt það lélegur stíll og óþroskaður að vilja ekki hlusta á rök annarra ef maður er ósammála fólki. Og enn verra þykir mér þegar fólki er sýnd óvirðing fyrir að hafa ákveðnar skoðanir. Ég er ekki skoðanabróðir Piu Kjærsgaard en hún hefur í mínum huga rétt á því að hafa skoðanir sínar.

Ég minnist á þetta hér þar sem ég las í dagblaði, sem ég komst í með hjálp internettengingarinnar á kaffihúsinu, að Helga Vala Helgadóttir sem er alþingiskona, hafi gengið út úr þingsal þegar Pia átti að halda ræðu sína, til að sýna henni óvirðingu sína og sennilega til að sýna að henni finnst ekki rétt að bjóða konu með slíkar skoðanir til að flytja ræðu. Ég hef ekkert álit á slíkri hegðun.  Í mínum huga hefur maður engan rétt til að líta á skoðanir sínar æðri skoðunum annarra og sýna fólki á öndverðum meiði lítilsvirðingu með því að vilja ekki hlusta á skoðanir þess. Ég hef hvorki þekkingu né yfirsýn til að dæma að mínar skoðanir séu betri og réttari en skoðanir annarra. Að ganga út er kannski bara svolítið alþingismannashow Helgu Völu, ég veit það ekki. Sjáið mig, ég hef á réttu að standa, ég er góð, Pia er vond. En ég veit það ekki, ég veit það ekki. Ég skil bara ekki af hverju allt þarf að vera svo hatursfullt.

Ég byrjaði á nýrri bók í gærkvöldi. Í bókahillunni hér í sveitinni eru allskonar bækur og meðal annars fann ég Bresti í Brooklyn eftir Paul Auster, sem ég las fyrir mörgum árum í afbragðs þýðingu Jóns Karls. Ég ákvað að lesa bókina aftur og nú er ég komin á vapp með Paul Auster um hans Brooklyn. Ég á leið um New York í haust og ákvað þegar ég byrjaði að lesa Brooklynbók Austers að kortleggja sögusviðið og ganga um það í haust þegar ég verð hvort eð er í nágrenninu. Það finnst mér bæði skemmtileg og góð hugmynd.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.