Vico del Gargano. Dagskrá daganna

Það er heitt í dalnum. 33 til 34 stiga hiti. En ég spila tennis á hverjum morgni. Vakna klukkan 7 og er mættur út á tennisvöll klukkan 8 og spila í einn og hálfan tíma. Þetta hef ég gert á hverjum morgni í tvær vikur. Það er heitt að spila tennis en ég læt hitann ekki hafa áhrif á mig, ég hleyp uppi alla bolta, sveittur og glaður.

Ég hef það líka fyrir reglu að ég drekk morgunkaffið á barnum uppi í þorpi. Einn tvöfaldan espresso, ekkert annað (ég fæ mér að vísu pínulítinn skammt af hafragraut þegar ég vakna og áður en ég fer niður á tennisvöll). Á kaffistéttinni sitjum við fjölskyldan svo í klukkutíma og ég svara tölvupóstum og sinni þeim erindum sem heimurinn hendir í mig.

Ég hef aðra reglu; eftir hádegi tek ég hvíldarstund. Ég ligg og les í tvo til þrjá tíma. Stundum dotta ég á meðan sólin sendir sína hvínandi heitu geisla niður á ólífutrén mín. Það verður svo heitt að ég fer oftast niður á strönd til að dýfa mér í kalt Adríahafið, eftir hvíldartímann, til að kæla mig aðeins niður. En ég er aldrei lengur en hálftíma í sjónum áður en ég held aftur heim á leið til að sinna bústörfum; vökva appelsínutrén, kíkja á ólífutrén eða dytta að húsi.

Þegar kvöldar förum við upp í þorpið, setjumst stundum á barinn og ég fæ mér bjór og Sus fær sér Aperol Spritz. Svo borðum við á einu af þeim litlu og góðu veitingastöðum hér í þorpinu. Einhverja fína litla rétti, oft skelfisk sem er veiddur hér rétt fyrir utan þorpið, eða osta og skinku héðan úr þorpinu. Svona er lífið einfalt hér í Suður-Ítalíu.

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.