Róm. Gremja hvílir í brjósti heimskra manna.

Í morgun á leið minni til Rómar (og hér er ég einmitt nú, í Rómaborg, eftir nokkra keyrslu) fékk ég ágætt bréf frá félaga mínum sem ég hef ekki heyrt frá lengi. Það gladdi mig sannarlega að fá bréf frá honum, Ég las langt bréf hans á Autogrill-áningarstað á hraðbrautinni milli Pescara og Rómar. Einhver hafði komið fyrir trébekk á bak við runna og þar settist ég í hitanum, með bakið í hraðbrautarumferðina og las bréfið. Félaga mínum lá margt á hjarta og ákafi hans var svo mikill að ég gat ekki varist að verða hálfsorgmæddur … ja…. yfir svo mörgu. Hann vitnaði meðal annars í þessi frægu ummæli: „Vertu ekki auðreittur til reiði því að gremja hvílir í brjósti heimskra manna.“

Þarna sat ég og drakk kaffi sem Sus færði mér. Ég var lengi að jafna mig eftir lesturinn  og því sat ég bara á bekknum og beið eftir að fjölskyldan kláraði að pissa og fá sér eitthvað í svanginn.

Í rælni, á meðan ég beið, las ég grein í Kjarnanum sem annar félagi minn hafði bent mér á. Ágúst Einarsson, sem einu sinni var alþingismaður, hélt víst ræðu í Skálholti og er ræðan birt í heild sinni á Kjarnanum. „Ég tel, og er ekki einn um það, að tungu­mál­ið, íslenskan, og rit­list­in, bækur og kvæði, hafi gert okkur að þjóð…“ segir Ágúst í grein sinni og bætir við:  „Lesskiln­ingur á Íslandi er sá lakasti á Norð­ur­lönd­um. Und­an­farin ár hefur staða Nor­egs, Dan­merkur og Sví­þjóðar batnað en versnað á Íslandi á sama tíma. Nið­ur­staðan í mörgum fjöl­þjóð­legum könn­unum um lestur í sam­burði við aðrar þjóðir er grafal­var­leg. Hins vegar eru þessar kann­anir aðeins frétt í einn eða tvo daga og svo er þetta gleymt. Það er því miður ekki áhugi á úrbótum á þessu sviði og alls ekki meðal stjórn­mála­manna. Íslenskan er í hættu, en flestum er sama. Áhuga­leysið á varð­veislu tungu­máls­ins er óskilj­an­legt hjá þess­ari fámennu þjóð sem á þó glæsta sögu með þessu tungu­máli.“

Ég get ekki verið meira sammála þessum ágæta manni, Ágústi. Hann bætir líka við í þessari fínu ræðu: „Til að tryggja full­veldi þarf að varð­veita eigið tungu­mál. Setjum það okkur sem leið­ars­ljós og sýnum öðrum kær­leika.“

Gott, Ágúst! Þú færð 7,5 frá mér.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.