Róm. Fallegasta verk mannanna

Ég kann vel við mig í Róm og ég er að læra á borgina. Við höfum verið árrisul, farið út áður en straumur ferðamanna fyllir göturnar og birta morgunsólarinnar með sínum löngu skuggum lýsir upp hús og torg.

Á ferðum mínum í gær rakst ég óvænt á gamlan mann sem stóð út á torgi. Ég hafði tekið eftir því á göngu minni að meðfram veggjum við gangstéttina hafði verið komið fyrir allskyns undarlegum hlutum með jöfnu millibili; dúkkuhandlegg, teikningum, skrifuðum textum á pappa, blaðaúrklippum, leikföngum og öðrum hlutum. Ég virti þetta safn fyrir mér á göngunni og var ekki viss um hvort þeir væru þarna fyrir tilviljun eða ekki, þar til ég kom að ljósmynd af gömlum manni sem stóð úti á torgi með hendur fyrir aftan bak. Andspænis myndinni í um það bil 4 metra fjarlægð stóð gamli maðurinn sjálfur, sá sami og var á ljósmyndinni (með hendur fyrir aftan bak), í nákvæmlega sömu fötum og í sömu stellingu með sama bakgrunn og á ljósmyndinni. Við hlið myndarinnar var skrifað „dobbelgänger“ á nokkrum tungumálum. Þetta var fyndið og svo óvænt að ég rak upp undrunaróp þegar ég kom auga í manninn. Hann hló að mér og rölti síðan rólega til mín og við hófum spjall um listaverkið. Þetta var auðmjúkur og vinalegur maður sem leysti mig út með gjöf. Mynd af mús.

IMG_2221

Það kom í ljós að hann setti upp útilistaverk víðsvegar um Róm á hverjum degi. Hann var 74 ára gamall og hét Fausto Delle Chiaie. Ég varð glaður yfir þessum fundi.

Í morgun lögðum við svo leið okkar í Péturskirkjuna. Ég kem varla til Rómaborgar án þess að fara inn í Péturskirkjuna. Ég held að kirkjan sé fallegasta verk mannanna. Ég veit ekkert eins fagurt. Ég verð alltaf jafn snortinn yfir því hvað mennirnir geta áorkað þegar þeir skapa til heiðurs einhverju sér æðra. Jafn aumkunarverðir og mennirnir geta verið í sjálfsupphafningu sinni geta mennirnir líka náð ógnar hæðum í sköpun hins fagra.

Bæði Fausto og Péturskirkjan gerðu mig að minnsta kosti glaðan.

ps ég held að ég hafi fundið Saab-bílinn hans Ammaniti á bílastæði hér í Róm.

IMG_2229

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.