Fiattone. Vatnsdæluþjófarnir

Í dag hef ég ekki afrekað annað en að vera á sífelldum þönum. Ég hef nánast ekki stoppað; þvælst upp og niður brekkuna hér fyrir neðan húsið (7 km). Áður hljóp ég upp og niður þessa brekku en ég er hættur að hlaupa slík hlaup, geng þess í stað. Ég hleyp eingöngu á eftir bolta; fótbolta eða tennisbolta. Hlaup án bolta stunda ég ekki lengur með það fyrir augum að geta hlaupið í fleiri ár á eftir bolta. Ég hef líka farið niður í bæ og séð um stórinnkaup, ég hef kynnt upp í pizzaofninum hér og bakað 12 pizzur. Það er varla að ég hafi sest niður til að lesa, og hræðilegasta bók allra tíma bíður mín nú á náttborðinu. Bráðum skríð ég undir sæng.

Klukkan nálgast miðnætti og húsið sefur. Í dag hefur læðst að mér illur grunur, grunur sem hefur lúrt lengi undir yfirborðinu. Ég hef þurft að lifa við það að vatnsdælunni niður í LaChiusa hefur verið stolið þrisvar sinnum síðustu tvö ár. Í  vikunni sem leið var ég að vinna á milli trjánna við LaChiusa, hátt upp í brekku, þegar ég sá dökkgrænan Ford Escort bíl koma akandi löturhægt eftir heimreiðinni. Í bílnum sátu tveir karlmenn. Bíllinn minn stóð í bílastæðinu, en ómögulegt er sjá mitt góða farartæki fyrr en maður hefur keyrt um það bil 100 metra inn í malarstíginn að húsinu. Til að komast að LaChiusa þarf maður að keyra í gegnum hlið og síðan eftir um það bil 200 metra löngum malarstíg áður en maður beygir upp á bílstæðið fyrir framan húsið. Það var augljóst að hik kom á mennina tvo þegar þeir komu auga á bílinn minn og þeir stöðvuðu Ford Escort ökutækið og bökkuðu sömu leið til baka. Með þessu fylgdist ég ofan úr brekku. Ég velti því  auðvitað fyrir mér hvað erindi þessir tveir menn áttu inn á veginn að húsinu.

En svo hurfu mennirnir og hugsanir um þá hurfu sömuleiðis þar til dag einn að ég var á leið niður á tennisvöll sem liggur rétt við ströndina. Ég var rétt kominn út fyrir hliðið mitt á mínum góða bíl þegar græni Ford Escort bílinn kom akandi á móti mér og í bílnum sátu þessir tveir svipljótu karlmenn, þeir sömu og ég hafði séð ofan úr brekkunni. Þeir horfðu illilega á mig þegar bílarnir okkar mættust.

Það var svo ekki fyrr en í morgun að mér varð aftur hugsað til þessara ófrýnilegu karlmanna og fór að gruna að þetta væru mennirnir sem væru ábyrgir fyrir vatnsdæluþjófnuðunum síðustu ár. Og nú sækir sú hugsun að mér að þeir séu sífellt á vappi í kringum LaChiusa og sæti færis að stela vatnsdælunni enn einu sinni.

ps. Á morgun þann 31.07 á J.K. Rowling afmæli, þetta er hátíðardagur, fæðingadagur eins áhrifamesta rithöfundur heimsins. J.K. Rowling verður 53 ára.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.