Nú höfum við horft á eftir Lars og Piu keyra af stað í átt til Danmerkur á svarta stationbílnum sínum. Síðar í dag koma Palli og Nanna hingað í hús með sundlaug en fyrir fáeinum mínútum barst sms frá íslenska forleggjaranum sem staddur er í Modena þar sem hann tilkynnir að hann vænti þess að vera hér í Fiattone um klukkan 15 „en það fer aðeins eftir hitanum“ eins og hann segir. Ég skil svo sem ekki hvaða áhrif hitinn hefur á bílferðir milli Modena og Fiattone. Sennilega er þessi fyrirvari settur vegna hitaóþols Palla.
Ég gafst upp á að lesa þessa hræðilegu bók sem ég hafði keypt eftir að hafa lesið um hana á síðum New York Times, The Haunting Hill House. Mér fannst hún svo hrikalega langdregin, kannski ekki leiðinleg, en langdregin var hún. Ég hafði náð að lesa meira en helming bókarinnar og ekkert heillaði mig sérstaklega og ekki varð ég hræddur. Sneri ég mér því að lesa Salingers, Catcher in the Rye.