Síðdegis gær slógum við Númi gamalt brekkugöngumet í hvínandi hita. Eftir gönguna hafði ég á tilfinningunni að ég væri kappi, svo ánægður var ég með mig og gönguafrekið. Snemma í morgun röltum við Sus og Davíð sömu leið á rólegri gönguhraða. Það er friðsælt að ganga þessa sjö km löngu leið á morgnana. Vegurinn liggur eftir fáförnum skógarvegi, frá húsinu og niður á þjóðveginn og í morgun nutum við kyrrðarinnar og morgunsvalans í skugga trjánna. Að vísu spillti ófrýnilegur og geltandi hundur sem við mættum skyndilega mitt í brekkunni morgunrónni. Mér leist ekkert á þennan stóra hund sem kom sperrtur á móti okkur. Hann reyndist þó meinlaus en ekki hefði ég viljað fá hundinn yfir mig.
Við náðum ekki að drífa Palla og Nönnu á fætur til morgungöngu en ekki kæmi mér á óvart að þau vilji slást í för með okkur í fyrramálið.
Ég sit niður í stofu og það er síðdegisró, siesta eins og hún heitir á máli heimamanna. Davíð horfir á kvikmynd, Sus og Númi lesa. Palli og Nanna ætla að loka augunum. Það er þögn og langt úr fjarska berst niður frá flugvél sem flýgur yfir fjöllin.
Í kvöld eigum við von á kokkunum sem ætla að sjá um kvöldmatinn hér í húsinu með sundlaug. Þetta eru systur héðan úr nágrannaþorpinu sem eru stórkostlegir matargerðarmenn. Við búum okkur undir veislumat og ég vona að það haldist þurrt. Í hádeginu gekk nefnilega á með þrumum og eldingum og helliregni. Núna er allt blautt.
Þótt ég njóti frísins hér í Suður-Evrópu til hins ýtrasta er ég líka farinn að hlakka til að koma heim. Heima bíða mín góð verkefni sem ekki verður leiðinlegt að kasta sér yfir. Svo eru líka ferðalög á dagskrá. Til Íslands (með arkitektinum) í lok ágúst og til Parísar í byrjun september þar sem verkefnið Fellibylurinn Betsy verður endurræst eftir nokkurn dvala. Ég hlakka mikið til þess.